139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[20:44]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forseta fyrir að ætla að kanna með þessa tilteknu ráðherra sem óskað var eftir að kæmu til umræðunnar. Ég vil einnig ítreka það sem fram kom fyrr í kvöld að nauðsynlegt er að þeir stjórnarþingmenn, sem telja þetta mál það mikilvægasta sem fram hefur komið, séu viðstaddir umræðuna og geti tekið þátt í skoðanaskiptum um þetta mikilvæga mál þeirra.

Ég kem fyrst og fremst upp vegna orða hv. þm. Helga Hjörvars þar sem hann lýsti því yfir að ef þetta ætti að halda svona áfram af hálfu stjórnarandstöðunnar, að menn stæðu upp og væru að bíða eftir því að ráðherrar sem um þetta mál véla komi til umræðunnar, skyldu menn bara gera sér grein fyrir því að haldið yrði áfram inn í sumarið í umræðum um þetta mál, virðulegi forseti.

Er hv. þm. Helgi Hjörvar farinn að hóta því að ef stjórnarandstaðan fer málefnalega fram á að tilteknir ráðherrar komi til umræðunnar þá skuli menn bara hafa verra af og sitja hér í allt sumar og ræða þessi mál? Þetta er fráleitur málflutningur og ég skil ekkert í hv. þm. Helga Hjörvar að tala með þessum hætti.