139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[20:46]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. forseta þingsins fyrir skörulega fundarstjórn áðan. Ég ætla að óska eftir að þeir aðilar sem bera höfuðábyrgð á því að frumvörp um stjórn fiskveiða eru lögð fram, forustumenn ríkisstjórnarflokkanna, verði viðstaddir þessa umræðu og leggi til sitt innlegg málefnalega við 1. umr.

Ég vil sérstaklega vekja athygli á því við upphaf máls míns að ráðuneyti hæstv. fjármálaráðherra, formanns Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, gerir í kostnaðarumsögn með þessu frumvarpi verulegar athugasemdir við frumvarpið og þar er haft á orði, með leyfi forseta:

„Fram hafa komið ábendingar um að slíkt fyrirkomulag kunni að brjóta í bága við jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar en þó er engin umfjöllun eða rökstuðningur um það í greinargerð frumvarpsins.“

Með þessum orðum gagnrýnir ráðuneyti hæstv. fjármálaráðherra harðlega slaka málafylgju í frumvarpinu og talað er um að mögulega sé verið að brjóta á stjórnarskránni hvað snertir jafnræðisfyrirkomulag með skattlagningu á sameiginlegri auðlind. Ég hefði haldið að hæstv. ríkisstjórn, væri henni einhver alvara með að koma þessu málefni áfram, hefði unnið heimavinnuna með þeim hætti að slík álitamál væru ekki uppi við 1. umr. um málið. Ég man varla eftir að fram hafi komið ríkisstjórnarfrumvarp þar sem kostnaðarumsögn fjármálaráðuneytisins er með þeim hætti að talið er mögulegt að verið sé að brjóta stjórnarskrá íslenska lýðveldisins. Sá eiðstafur sem við hv. alþingismenn undirritum þegar við setjumst á Alþingi er um það að heita því að virða stjórnarskrá lýðveldisins. Það er því mjög alvarlegt ef einhver minnsti vafi er um að við séum að brjóta stjórnarskrána með lagasetningu héðan. Þess vegna er alveg ótrúlegt að málið skuli koma í þessum búningi frá ríkisstjórninni, svona vanbúið eins og raun ber vitni, enda er það svo að málið er tiltölulega nýkomið fram. Samkvæmt þingsköpum er síðasti frestur til að leggja fram mál án þess að veita þurfi afbrigði 1. apríl og nú er júnímánuður að hefjast. Þessi mál sem snerta grundvallarbreytingar í sjávarútvegsstefnu þjóðarinnar eru allt of seint fram komin.

Á þingflokksfundi Framsóknarflokksins sem haldinn var í dag tókum við á móti fulltrúum launafólks í sjávarútvegi, fulltrúum smábátasjómanna og fulltrúum útgerðarinnar til að fara yfir þau frumvörp sem hér um ræðir. Reyndar var það svo að á þeim tveimur tímum sem við gáfum okkur í yfirferð um málið komumst við ekki yfir þessi yfirgripsmiklu mál. Þess vegna er alveg ótrúlegt að menn ætli sér í fullri alvöru að klára þessi mál á sjö þingdögum, breytingar á undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar. Það hvarflar að mér, og ég vil ekki trúa því, að ríkisstjórnin ætli að viðhafa sömu handarbakavinnubrögðin og haustið 2009 þegar ríkisstjórnin breytti í grundvallaratriðum skattkerfi þjóðarinnar á örfáum dögum rétt fyrir áramót sem hefur valdið því að mörg mistök voru gerð sem hamlað hafa fjárfestingu í íslensku atvinnulífi með tilheyrandi atvinnuleysi. En það er annað mál.

Á þennan fund í dag komu hagsmunaaðilar eins og ég sagði áðan og við spurðum þá hvernig samráð hefði verið haft við þá við samningu frumvarpanna. Maður varð sleginn þegar maður heyrði svörin: Ekkert. Ekkert samráð, hagsmunaaðilar voru kallaðir til hálfum sólarhring áður en frumvörpin voru birt og þeim var kynnt að þetta væri niðurstaða ríkisstjórnarinnar. (Gripið fram í.) Hér er um að ræða vinnubrögð sem við höfðum því miður séð allt of oft í mörgum öðrum málum. Maður hefði haldið að það væri gáfulegt hjá fulltrúum ríkisstjórnarflokkanna að hafa samráð við þá aðila sem eru að vinna hvern einasta dag að þessum málum innan greinarinnar og fá álit þeirra á þeim frumvörpum sem hér um ræðir, en niðurstaða þessara hagsmunaaðila, sem eru fulltrúar launafólks, fulltrúar smábátasjómanna, fulltrúar útgerðarinnar, var öll á sama veg: Þau frumvörp sem við ræðum hér eru ekki pappírsins virði. Fjölmargar athugasemdir komu fram hjá þessum aðilum sem ríkisstjórnin hefði kannski átt að heyra áður en hún lagði þetta frumvarp fram, en það virðist allt á sömu bókina lært þegar kemur að hinum „nýju vinnubrögðum“ hjá hinni norrænu velferðarstjórn að samráðið er einfaldlega í orði en ekki á borði.

Það segir ýmislegt að frumvörpin skuli hafa verið lögð fram án þess að efnahagsleg greining hafi farið fram á áhrifum frumvarpanna eða löggjafarinnar, ef hún verður að veruleika, á þessa undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar. Það er hreinlega með ólíkindum að 6. eða 7. júní eigi að koma fram efnahagsleg greining á þessum frumvörpum, en þá á væntanlega 2. umr. um málið að vera lokið, og þá ætli menn að taka til greina efnahagslega þætti er snerta þetta mál, undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar sem snertir þúsundir fjölskyldna. Það er einfaldlega ekki líðandi að menn stundi slík vinnubrögð á árinu 2011. Eftir tveggja ára starf leggur ríkisstjórnin fram ófullnægjandi frumvarp án þess að hafa samráð við helstu hagsmunaaðila, án þess að gera úttekt eða greiningu á því hvaða efnahagslegu áhrif þetta muni hafa á þessa mikilvægu atvinnugrein. Þessi vinnubrögð frá algera falleinkunn, og ekki bara hjá okkur stjórnarandstæðingum, ég ætla að minna á að í umræðu um þetta frumvarp er 21 aðili á mælendaskrá, þar af er einn stjórnarliði, allir hinir tilheyra því liði á Alþingi sem styður ekki þessa ríkisstjórn. Og sá eini, Kristján L. Möller, eini stjórnarliðinn sem hefur kvatt sér hljóðs, hefur gengið hvað harðast fram í gagnrýni á þetta mál og sett fram ýmsa fyrirvara við samþykki sitt hvað þetta mál varðar. Maður veltir því fyrir sér: Hvar eru hinir hörðu stuðningsmenn frumvarpsins? Af hverju hafa þeir ekki sett sig á mælendaskrá? Af hverju erum við hv. þingmenn sem neituðum því að halda áfram umræðu um þetta mikilvæga mál langt fram eftir kvöldi og inn í nóttina, við greiddum atkvæði gegn því í morgun, af hverju erum við í miklum meiri hluta í þingsal en þeir sem vildu halda kvöldfund hafa ekki látið sjá sig? Með einstaka undantekningum, hæstv. forseti. (Utanrrh.: Hvað eru margir sjálfstæðismenn í salnum?) Nú er hæstv. utanríkisráðherra kominn í hausatalningu og ég held að hann sjái ekki eða viti hversu margir eru að fylgjast með umræðunni en Framsóknarflokkurinn hefur lagt mikið til þessarar umræðu í dag, mun meira en stjórnarliðar sjálfir, enda er það svo að þetta mál er ekki lagt fram af Framsóknarflokknum. Hins vegar höfum við komið með málefnalegt innlegg í þetta og ætla ég að fara að snúa mér (Gripið fram í.) að því að ræða það frumvarp sem hér er til umræðu. (Utanrrh.: Hvar eru framsóknarmenn?) Og það væri ágætt, frú forseti, ef þú gætir beint þeim tilmælum til hæstv. utanríkisráðherra að gefa mér sæmilegt næði til að klára mál mitt vegna þess að ég hef einungis 15 mínútur til að fjalla um frumvarpið. (Utanrrh.: Hvar eru framsóknarmenn?) Almennt séð … (Forseti hringir.)

(Forseti (SF): Forseti biður hv. ræðumann að gera smáhlé á máli sínu og vill biðja hæstv. utanríkisráðherra um að hætta að grípa fram í.)

Enn og aftur, frú forseti, þakka ég fyrir skörulega fundarstjórn. Helst vildi ég að sá forseti sem er hér á forsetastóli væri alla daga hér vegna þess að hún gætir sanngirni í fundarstjórn og sér til þess að hv. þingmenn fái að koma sínum málflutningi til skila.

Almennt um þetta mál og sú málefnalega gagnrýni sem ég vil koma að í ræðu minni er í fyrsta lagi hvernig staðið er að framlagningu þess, og ég hef farið yfir það, vinnubrögðin hafa verið fyrir neðan allar hellur er snertir allan undirbúning að þessu máli.

Í öðru lagi vil ég nefna að þegar við horfum til þess frumvarps sem við ræðum hér, litla frumvarpsins, og hins stóra finnst mér vanta alla framtíðarsýn eða langtímahugsun í lagasetninguna. Aðilar í sjávarútvegi fá einfaldlega of stuttan tíma gagnvart nýtingarsamningunum og í raun og veru mun það skapa töluverðan óróleika í greininni og það er eitthvað sem við þurfum ekki í dag. Ég vonast til að við munum, þvert á flokka, ná að breyta þeirri hugsanavillu sem mér finnst vera í þessu frumvarpi.

Mig langar líka að minna á það, frú forseti, að með þessu frumvarpi hefur hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í raun virt að vettugi þau skýru skilaboð sem komu frá 63 þingmönnum eftir að þingmannanefndin svokallaða hafði farið yfir rannsóknarskýrslu Alþingis þar sem við ræddum um að við ættum að auka veg og virðingu Alþingis, auka vægi Alþingis í ákvarðanatöku og minnka vald framkvæmdarvaldsins. Þegar maður les þetta frumvarp kemur í ljós að hæstv. sjávarútvegsráðherra er að fela sér veruleg völd, verði frumvarpið að lögum, þegar kemur að því hvernig eigi útdeila verðmætum aflaheimildum. Í 3. gr. frumvarpsins sem er kapítuli út af fyrir sig, mjög löng grein, er fjallað níu sinnum um hæstv. ráðherra og sex sinnum um sveitarstjórnir þannig að hér er verið að framselja heilmikið vald til einstakra aðila í samfélaginu, eitthvað sem við höfum viljað reyna að nálgast með almennari hætti, að löggjöfin væri almennari en þarna kveður á um.

Það er dálítið merkilegt við 3. gr. — hún er tvær blaðsíður í þessu frumvarpi, ofboðslega umfangsmikil og viðamikil grein eins áður sagði og veitir hæstv. ráðherra heilmikið svigrúm og heilmikil völd — að maður hefði haldið að í lögskýringargögnum yrði fjallað um þessa grein með ansi ítarlegum hætti en það ótrúlega er að meðan 3. gr. er um tvær blaðsíður er lögskýringargagnið tæplega ein blaðsíða, miklu styttra en greinin sjálf. Ég held að það segi dálítið um hvernig staðið hefur verið að málum.

Ég hef áhyggjur af því hvernig ríkisstjórnin ætlar að framfylgja byggðakvótanum og hvaða leikreglur eiga að gilda þar. Mér finnst orðað með allt of almennum hætti hvernig sveitarstjórnir eiga að haga aðgerðum sínum og ég vara við því að verið sé að færa í auknum mæli ákvarðanatöku yfir á sveitarfélögin vegna þess að í nærsamfélaginu eru slíkar ákvarðanir að mörgu leyti afskaplega viðkvæmar eins og við þekkjum. Hins vegar þurfum við að breyta, við þurfum að finna einhverja lausn á því og ég hef hana kannski ekki hér, en við þurfum að breyta þessu fyrirkomulagi í úthlutunum. Bæði er þetta seinvirkt og síðast en ekki síst er sú ákvarðanataka sem þarf að eiga sér stað í nærsamfélaginu mjög erfið.

Varðandi veiðigjaldið vil ég segja að ég tel að við getum ekki sagt hér hvert það eigi að vera vegna þess að greiningin á því hvað atvinnugreinin þolir, hver geta hennar er til að greiða þetta veiðigjald liggur ekki fyrir, og síðast en ekki síst á nær allt veiðigjald að renna í ríkissjóð og þá er þetta orðinn töluverður landsbyggðarskattur. Ég hefði haldið að við þyrftum að styrkja hinar dreifðu byggðir enn betur, menn hafa sagt að þeir vildu gera það og ég hefði haldið að hér væri einstakt tækifæri til þess. Við framsóknarmenn viljum fara aðra leið til að úthluta þessu veiðigjaldi, við viljum verja hluta þess til nýsköpunar og markaðsstarfs innan sjávarútvegsins. Við viljum treysta atvinnuþróunarfélögin og hinar dreifðu byggðir ásamt því að hluti af þessu fjármagni fari í ríkissjóð. Vonandi verður sjávarútvegurinn í stakk búinn til að greiða ríflega auðlindarentu á næstu árum enda munum við þá væntanlega haga málum þannig að starfsumhverfi sjávarútvegsins verði tryggt, það verði stöðugt. Þannig getur sjávarútvegurinn greitt auðlindarentu sem mun renna til þjóðarinnar og þeirra aðila sem ég nefndi að framan en hann verður örugglega ekki þannig verði þetta frumvarp að lögum óbreytt, þá tel ég að vegið sé að grundvallarhugsuninni er tengist íslenskum sjávarútvegi. Þannig getum við ekki látið íslenskan almenning, landsbyggðina og fleiri aðila sem ég hef nefnt, njóta ávaxtanna af annars að mörgu leyti góðu kerfi. Við þurfum að vísu að endurskoða það og ég lýsi okkur reiðubúin til þess en það hryggir mig að þurfa að ræða svo vanbúið mál sem hér um ræðir og að fá svo stuttan tíma til þess. En ég vil gera betur grein fyrir afstöðu (Forseti hringir.) minni til frumvarpsins og ég bið hæstv. forseta um að setja mig aftur á mælendaskrá.