139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[21:03]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þetta andsvar. Reynslan af reglum og lögum um byggðakvóta hefur ekki beint verið góð á undangengnum árum. Mörg sveitarfélög eru komin jafnvel tveimur eða þremur árum á eftir í úthlutunum og allt hefur þetta fyrirkomulag hefur verið mjög seinvirkt. Ég tel því að við þurfum að endurskoða fyrirkomulagið. Hæstv. ráðherra bendir á að orðalagið sé mjög svipað í núgildandi lögum.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra, af því að menn hafa vitnað mikið til stefnu Framsóknarflokksins á nýafstöðnu flokksþingi, hvað honum þyki um þá hugmynd að menn horfi á úthlutun til fiskvinnslu í landi þegar kemur að byggðakvótanum vegna þess að byggðakvótinn á ekkert síður að styrkja landvinnsluna en útgerðina. Ég spyr því hæstv. ráðherra hvort hann sé til viðræðu um að auka vægi landvinnslunnar þegar kemur að þessu máli þannig að hægt sé að fjölga störfum í landi og á sjó.