139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[21:08]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Jú, ég hef áhyggjur af því. Segjum sem svo að ekki yrði sú aukning í aflaheimildum sem við öll vonumst nú eftir, heldur yrði samdráttur. Það yrði náttúrlega mikið áfall fyrir þá aðila sem eru í útgerð, hvað þá ef menn færu þá leið sem hér er kveðið á um að minnka enn frekar aflahlutdeild þeirra og setja í þessa potta. Við hefðum því viljað samkvæmt þeim ályktunum sem Framsóknarflokkurinn hefur staðið að fara varlega og byggja þessa potta upp á grundvelli aukningar sem vonandi verður í framtíðinni.

Hins vegar hef ég áhyggjur af því að komið verði til að mynda algjörlega í veg fyrir framsalið, svo slæmt orð sem það hefur á sér, því að þá missum við ákveðna hagræðingu í atvinnugreininni sem er nauðsynleg að einhverju leyti. En ég tek fram að ég mundi vilja sjá einhvers konar takmörkun á framsalinu vegna þess að það hefur náttúrlega komið sér mjög illa fyrir sumar byggðir og það þurfum við að skoða.