139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[21:11]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Þó að við séum að tala um minni fiskiskip, allt að 3 brúttótonnum, vona ég að ekki fari margir árabátar á sjó, en hvað sem því líður vekur þetta upp ákveðnar spurningar. Að sjálfsögðu hefði verið ágætt að geta farið yfir það á fyrri stigum málsins hvað felst í þessari 1. gr. Af hverju er þetta ákvæði þarna inni? Það er talað um að stærri bátarnir hafi svo mikið samkeppnisforskot þegar kemur að strandveiðum. Ég tel að við þurfum að staldra við þegar kemur að þeim ólympísku veiðum sem fylgja strandveiðikerfinu í dag. Við höfum jafnvel verið með hugmyndir um að bátar fái einungis ákveðna hlutdeild og geti þá ráðið því hvenær þeir fara á sjó. Eins og þetta er núna róa menn því miður í misjöfnum veðrum og þess vegna vekur það ákveðnar áhyggjur ef það á að vera einhver sérstakur hvati að menn séu á eins litlum bátum og hægt er eða skipum.