139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[21:12]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Að mörgu leyti var ræða hv. þingmanns mjög málefnaleg. Ég tel það fullkomlega lögmæta skoðun sem hann varpaði t.d. fram um hlut sveitarfélaga, en ég er algjörlega andstæðrar skoðunar.

Sömuleiðis vil ég segja að það sem hv. þingmaður sagði um athugasemdir fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins um stjórnarskrárákvæðið er nokkuð sem þingið þarf að skoða mjög vel. Það liggur fyrir, búið er að benda á það og þá er það hlutverk þingsins að reyna að leysa úr því.

Það sem olli mér hugarangri var hins vegar að heyra hv. þingmann undir lok tölu sinna segja að menn ættu að gjalda varhuga við því sem hann kallaði ólympískar veiðar smábáta. Herra trúr, hvað á hv. þingmaður við? Leggst þingmaður úr Norðausturkjördæmi gegn strandveiðunum? (Gripið fram í: Nei.) Hver er afstaða hans til þeirra? Það er ekki hægt að skilja hann öðruvísi. Ég bið hv. þingmann um að gera hreint fyrir sínum dyrum og segja þinginu klárt og kvitt: Styður hann ekki að strandveiðikvótinn verði aukinn? Hvað átti hann við með að gjalda þyrfti varhuga við (Forseti hringir.) ólympískum veiðum litlu bátanna? Hvað átti hann við?