139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[21:14]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að Framsóknarflokkurinn hefur góðu heilli ekki lagst gegn strandveiðum. Hins vegar hefur hv. þingmaður haldið þrjár ræður í dag sem er ekki hægt að leggja út af með öðrum hætti en þeim að hann sé sá innan Framsóknarflokksins sem sé á móti strandveiðum.

Hv. þingmaður treysti sér ekki til að svara spurningu minni sem var þessi: Er hann á móti því að strandveiðikvótinn verði aukinn um 3 þús. tonn? Ef hann er ekki á móti því, hvers vegna tekur hann þátt í málþófi hér til að reyna að stoppa þetta frumvarp?

Sem betur fer, frú forseti, hefur hv. þingmaður lýst því yfir að hann eigi eftir að halda enn eina ræðu hér í kvöld. Ég hlakka til að hlusta á hana vegna þess að hv. þingmaður hefur talað með þeim hætti að kjósendur hans í Norðausturkjördæmi hafa fyllstu ástæðu til að ætla að hann hafi í besta falli efasemdir um strandveiðarnar en sé í versta falli á móti því að auka kvótann.