139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[21:15]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla ekki að detta í sama hjólfar og hæstv. ráðherra gerði. Ég sagði í ræðu minni að við vildum auka við þessa potta á grundvelli aukningar aflaheimilda. (Gripið fram í.) Hæstv. ráðherra reynir nú með endalausum frammíköllum að trufla þann sem hér stendur. Það er einfaldlega ekkert hæft í því hjá hæstv. ráðherra að sá sem hér stendur hafi talað á móti strandveiðum, þvert á móti. Þetta er kannski birtingarmynd umræðunnar og hvernig Samfylkingin hefur reynt að haga umræðu sinni með því að gera alla þá sem eru innan greinarinnar að einhverjum ímynduðum sægreifum. Málin eru einfaldlega ekkert svarthvít eins og Samfylkingin rekur þau hér í afskaplega miklum frösum. Samfylkingin er að verða mesti frasaflokkur landsins. Hún getur ekki mætt til efnislegrar og yfirvegaðrar umræðu heldur dettur hæstv. utanríkisráðherra í það far að nota (Forseti hringir.) frasa.