139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[21:19]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þegar samráð á sér stað vel á annað ár með öllum hagsmunaaðilum í greininni vil ég nú meina að það sé allvíðtækt samráð. Þegar mál kemur til umræðu og umfjöllunar í þinginu er það hins vegar að sjálfsögðu opið til málefnalegrar og opinnar umræðu og þá hafa allir umsagnarrétt um það, hagsmunaaðilar ekkert síður en aðrir.

Þingmaðurinn sagði að veiðigjaldið væri landsbyggðarskattur. Ég vil líka mótmæla því vegna þess að veiðigjald þýðir einfaldlega að þeir borga sem veiða. Hið eðlilega viðmið er að þeir borgi sem veiði sama hvar þeir eru staddir á landinu.

Hins vegar tek ég undir með þingmanninum að völd ráðherra mættu minnka verulega í báðum frumvörpunum en sannleikurinn er sá að þau völd eru mikil nú þegar og framsóknarmenn og sjálfstæðismenn kvörtuðu ekki undan því á meðan þeir voru með sjávarútvegsráðherra sína á stóli þó að þeir hafi kannski áhyggjur af því núna þegar búið er að skipta um stjórnvöld. En ég tek undir að mikið handstýringarvald ráðherra er ekki æskileg, nútímaleg (Forseti hringir.) stjórnsýsla og úr því mætti draga.