139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[21:21]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég fagna síðustu orðum hv. þingmanns, loksins getur maður átt efnislegar umræður um málið við fulltrúa Samfylkingarinnar. Það var mjög erfitt að ná sambandi við hæstv. utanríkisráðherra í andsvörum hans þó að kallað sé eftir því að umræðuhefðin á Alþingi og vinnubrögðin breytist.

Maður veltir því fyrir sér, án þess að ég ætli einu sinni að brosa þegar ég segi það, hvort mönnum sé alvara með að leggja fram frumvörp um breytingar á fiskveiðilöggjöfinni þegar sex þingdagar eru eftir, heildarendurskoðun á lögunum. Eftir er að senda málið til umsagnar en venjan í gegnum tíðina hefur verið að umsagnaraðilar fái hálfan mánuð til að klára það. Eru þetta hin nýju vinnubrögð sem hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir og hæstv. utanríkisráðherra Össur Skarphéðinsson tala fyrir?

Það er til minnkunar fyrir Alþingi Íslendinga ef stjórnarliðum er í alvörunni alvara með að klára þetta mál áður en við förum heim af þinginu. Ja, þvílík vinnubrögð.