139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[21:22]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp hæstv. sjávarútvegsráðherra um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða. Kannski ekki seinna vænna enda er ríkisstjórnin búin að vera við völd í tvö ár og stendur í samstarfssamningi hennar að breyta eigi lögum um stjórn fiskveiða með ákveðnum hætti. Það hefur líka verið markmið Samfylkingarinnar í langan tíma. Það einkennilega er þó hins vegar að hvorugt þessara frumvarpa sem hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur lagt fram er í samræmi við stefnu flokkanna sem eru við stjórnvölinn og ekki heldur í samræmi við samstarfsáætlun ríkisstjórnarinnar.

Við í Hreyfingunni höfum fengið mjög ítarlega kynningu á frumvarpinu í sjávarútvegsráðuneytinu sem var um margt mjög fróðleg. Þó að frumvarpið sé á margan hátt illskiljanlegt er það ekki eingöngu skiljanlegt Tarzan eins og sumir héldu fram fyrir nokkrum dögum síðan. Það er skrifað á íslensku, það þarf bara að liggja svolítið vel yfir því til að skilja það. Það er ótrúlega flókið og gengur að okkar mati einfaldlega allt of skammt. Í því er allt of mikil málamiðlun við sérhagsmunahópa. Fingraför handstýringar eru úti um allt í hverri einustu grein í báðum frumvörpunum sem kann ekki heldur góðri lukku að stýra. Það er ekki í samræmi við samstarfsáætlun ríkisstjórnarinnar.

Frumvarpið sem við ræðum hér, sem menn hafa kallað Jónsbók hina skemmri, er ótrúleg niðurstaða eftir þá miklu vinnu og þær miklu deilur sem staðið hafa um fiskveiðistjórnarkerfið áratugum saman. Niðurstaðan er að hagsmunir almennings eru fyrir borð bornir en hagsmunir sérhagsmunaafla ráða enn sem fyrr ríkjum. Ótrúleg afstaða Sjálfstæðisflokksins kemur náttúrlega ekki á óvart gagnvart þessu máli, þeir hafa lengi vel verið nokkurs konar pólitískur armur LÍÚ á Alþingi en þvergirðingsháttur Framsóknarflokksins við að hnika málum í þessum mikilvæga málaflokki vekur áhyggjur.

Það er brýnt, frú forseti, að breyta fiskveiðistjórnarkerfinu og gera úthlutanir aflaheimilda réttlátari og hagkvæmari og þær breytingar á að gera með hagsmuni sem flestra að leiðarljósi. Enginn á náttúruna né auðlindir hennar nema þjóðin og enginn á að fá náttúruauðlindir afhentar nema gegn sanngjörnu gjaldi sem verður til á markaði þar sem sem flestir geta keppt um auðlindina. Aldrei getur náðst sátt um slíkt fyrirkomulag við LÍÚ og pólitískan arm þeirra á Alþingi, Sjálfstæðisflokkinn, það er alveg á hreinu. Því er brýnt að hugsa stórt strax frá upphafi og leggja fram tillögur um alvöru breytingar sem byggja á víðtækum byggðasjónarmiðum, víðtækum réttlætissjónarmiðum og góðum hagkvæmnissjónarmiðum. Það er einmitt það sem frumvarp Hreyfingarinnar gerir sem er á dagskrá síðar í vikunni, samhangandi við tvö frumvörp hæstv. sjávarútvegsráðherra.

Mig langar að vitna í markmiðsgrein frumvarps Hreyfingarinnar, en þar segir, með leyfi forseta:

„Markmið þessa frumvarps er að breyta skipulagi fiskveiðistjórnunar og sölu sjávarafla og tryggja með því ríka aðkomu sveitarfélaga að úthlutunum aflaheimilda og eflingu byggðar. Með frumvarpinu er stefnt að því að hvert sveitarfélag á Íslandi fái forræði yfir veiðum á samsvarandi hluta nytjastofna á Íslandsmiðum og nemur samanlagðri aflahlutdeild þeirra fiskiskipa sem skráð voru í viðkomandi sveitarfélagi fyrir gildistöku laga um stjórn fiskveiða, nr. 38/1990“ — þ.e. frá því fyrir framsal.

„Að auki stefnir frumvarpið að fjárhagslegri endurskipulagningu útgerðar á Íslandi í kjölfar efnahagshrunsins 2008. Loks stefnir frumvarpið að eflingu umhverfisvænna handfæraveiða.“

Í þessum markmiðum má sjá sjónarmið sem Framsóknarflokkurinn hefur viðrað hvað eftir annað í dag og ágætt að heyra þau sjónarmið því að þeir munu þá væntanlega taka undir málflutning okkar. Í frumvarpinu eru líka þau sjónarmið sem Samfylkingin hefur haft á stefnuskrá sinni árum saman, þ.e. að aflaheimildir fari á uppboð.

Í greinargerð með frumvarpinu sem við munum leggja fram kemur m.a. eftirfarandi fram og við hugsum stórt hér:

„Markmið frumvarpsins er að færa úthlutun á aflaheimildum úr sameiginlegum fiskveiðiauðlindum þjóðarinnar til þess horfs sem hún var í áður en framsal aflaheimilda kom til árið 1991, en fram að þeim tíma hafði úthlutunin byggst á veiðireynslu til margra ára og var því bæði sanngjörn og réttlát. Með frumvarpinu er einnig reynt að tryggja að aflaheimildir fari til þeirra byggða sem þeim var upprunalega úthlutað til. Miðað er við að aflahlutdeildin sé nýtt í viðkomandi sveitarfélagi. Þó er sveigjanleiki í nafni hagkvæmni tryggður þar sem aflahlutdeildin er framseljanleg þegar hagkvæmnisrök gefa tilefni til. Með því móti verður réttur íbúa sjávarbyggða á Íslandi til sjósóknar tryggður eins og verið hefur frá örófi alda sem eini raunverulegi grundvöllur tilvistar flestra þeirra.“

Frú forseti. Siglfirðingar með öll sín góðu söfn munu aldrei lifa af því að selja ferðamönnum sínalkó þrjá mánuði á ári, það bara er þannig. Þeir þurfa að fá að veiða fisk (Gripið fram í.) Og ekki appelsín heldur.

Skýrt er kveðið á um eignarhald þjóðarinnar á fiskstofnunum í kringum landið í fyrstu tveimur greinum laga um stjórn fiskveiða en í 1. gr. segir m.a. orðrétt, með leyfi forseta:

„Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.“

Frumvarp Hreyfingarinnar tryggir að arður af nytjastofnum á Íslandsmiðum skili sér til réttmætra eigenda þeirra, þ.e. íslensku þjóðarinnar. Upptaka uppboðskerfis við sölu aflaheimilda tryggir hámarksverð fyrir nýtingarrétt auðlindarinnar en þó eingöngu að því marki sem útgerðirnar geta borið. Frumvarpið gerir einnig ráð fyrir að hluta aflaheimilda megi selja framvirkt til allt að fimm ára í senn þannig að þeir sem hyggjast fjárfesta í útgerð geti gert ráð fyrir aðgengi að heimildum til lengri tíma en eins árs. Þá er sveigjanleiki tryggður með því að útgerðir utan viðkomandi sveitarfélaga geti keypt aflaheimildir gegn greiðslu álags eða gjalds til viðkomandi sveitarfélags þannig að framsal milli sveitarfélaga er inni og hagkvæmninni haldið við.

Með ákvæði um meðafla er stefnt að því að girða að mestu leyti fyrir brottkast afla þó að æskilegt sé að settar verði skýrari reglur og afdráttarlausari sem banni alfarið brottkast afla. Frumvarp Hreyfingarinnar gerir einnig ráð fyrir mikilli beinni atvinnusköpun vegna þess að öllum afla þarf að landa á innlenda uppboðsmarkaði í viðkomandi sveitarfélagi og þar með verði skilið á milli veiða og vinnslu sem er mjög mikilvægt. Sú breyting ein og sér mun að öllum líkindum leiða til um 800–1.000 nýrra starfa með afleiddum störfum við fiskverkun með mjög litlum tilkostnaði og á skömmum tíma.

Framsal aflaheimilda hefur leitt til gríðarlegrar byggðaröskunar víða um land og gert að engu eina bjargræði sjávarbyggða, sjósóknina sem þær hafa notið í aldaraðir. Með því að taka lífsbjörgina af sjávarbyggðunum hefur öll afkoma og eignastaða íbúa á þessum stöðum raskast við atvinnuleysi, brottflutning og eignabruna. Með samþykkt frumvarps Hreyfingarinnar í stað frumvarpa ríkisstjórnarinnar mun sú þróun sennilega snúast við og fólksflótti á landsbyggðinni stöðvast og komið í veg fyrir þann gríðarlega samfélagslega kostnað sem slíkir flutningar hafa í för með sér.

Aukning á afla til strandveiða er líka í frumvarpinu en þær verða hér eftir utan tillagna Hafrannsóknastofnunar um heildarafla. Strandveiðar munu fara upp í 40 þús. tonn. Tíminn mun verða lengdur um mánuð í hvorn enda tímabilsins og standa þá yfir í sex mánuði og þeir sem stunda strandveiðar munu greiða af þeim auðlindagjald sem tekur mið af uppboðsverði á uppboðsmörkuðum og aflaheimildum sem verður greitt þegar aflanum er landað þannig að allir borga fyrir not af auðlindinni.

Sá skaði sem útgerðir og núverandi handhafar aflaheimilda verða fyrir mun verða leiðréttur með því að skuldir útgerða sem eru til komnar vegna kvótakaupa eða -leigu verða afskrifaðar og settar í sérstakan sjóð, kvótaskuldasjóð, sem verður svo greiddur niður með 5% gjaldi á allar seldar veiðiheimildir þar til sjóðurinn er að fullu uppgerður.

Frú forseti. Frumvarpið sem við leggjum fram er það sem þarf að leggja fram og þarf að fá umræðu í þinginu en ekki sú málamyndabreyting sem hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur lagt fram. Varðandi umræðuna sem skapast hefur í kringum hugsanleg brot á eignarréttarákvæðum stjórnarskrár viljum við taka fram að um langa hríð hefur skýrt verið kveðið á um það í lögum að nytjastofnar séu sameign þjóðarinnar. Þrátt fyrir að möguleiki sé á þeirri ólíklegu niðurstöðu dómstóla að ríkið sé skaðabótaskylt vegna innköllunar aflaheimilda eða annars sem leiðir af slíku er engu að síður þess virði að þær breytingar sem lagðar eru fram í frumvarpi Hreyfingarinnar komist til framkvæmda. Betra er að þurfa hugsanlega að sæta slíkri niðurstöðu en að búa áfram við óbreytt eða lítið breytt fyrirkomulag.

Þetta er sú stóra hugsun, frú forseti, og sú stóra nálgun sem þarf að hafa við við breytingu á fiskveiðistjórnarkerfinu en ekki það krukk sem hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra leggur til með frumvörpum sínum. Þau ganga engan veginn nógu langt. Við í Hreyfingunni vonum að við náum að ræða þessi mál í þaula og þau fái viðeigandi farveg en eins og komið hefur ítrekað fram hjá hæstv. forsætisráðherra á að fara með tillögur um breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu í þjóðaratkvæðagreiðslu. Í framhaldi af þeim ítrekuðu tilmælum munum við í Hreyfingunni leggja fram síðar í vikunni tillögu til þingsályktunar um að þessi mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu og þar verði kosið um í fyrsta lagi Jónsbók minni og Jónsbók stærri, í öðru lagi frumvarp Hreyfingarinnar eða að þriðju óbreytt ástand.