139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[21:35]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka undirtektir hæstv. sjávarútvegsráðherra við þetta byggðasjónarmið. Að okkar mati er það mjög mikilvægt, einn af þremur mikilvægustu þáttum þessa máls alls, þ.e. að þær sjávarbyggðir í kringum landið sem hafa stundað fiskveiðar frá örófi alda geti haldið því áfram og lifað af því. Eins og við vitum er eini tilvistargrundvöllur flestra þessara byggða sá að geta sótt fiskinn og veitt hann í sjónum fyrir utan byggðirnar. Það gengur ekki heldur, með fullri virðingu fyrir frumvarpi hæstv. sjávarútvegsráðherra, að fara af stað með alla þessa víðtæku byggðapotta og það pottaglamur sem ég heyri og sé þegar ég les þetta frumvarp. Það er einfaldlega of flókið og of mikil handstýring í því. Þess vegna leggjum við til að sjávarbyggðunum verði einfaldlega afhentar þessar aflaheimildir einu sinni á ári, þær muni þá fara bara í uppboð og þar með er málinu nánast lokið.