139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[21:37]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég fagna því að það er samhljómur með Hreyfingunni og hæstv. ráðherra í fleiri þáttum þessara mála. Það verður fagnaðarefni að fá að vinna þetta í gegnum þingið. Við munum að sjálfsögðu ræða frumvarp Hreyfingarinnar ítarlega þegar það kemst á dagskrá hvenær svo sem í ósköpunum það verður. Ég viðraði ýmsa þætti þess í ræðu minni áðan, einmitt vegna þess að ég tel brýnt að það sé kallað á athugasemdir þingmanna um það frumvarp líka meðan við erum að ræða hin frumvörpin. Við getum þá speglað þau hvert í öðru og reynt að sjá hugsanlega bestu leiðir. Við lítum svo á að frumvarp Hreyfingarinnar sé ákveðin sáttaleið í þessu máli milli þingsins og þjóðarinnar þar sem LÍÚ er undanskilið, enda vitum við að LÍÚ mun aldrei sætta sig við neinar breytingar á kerfinu, hverjar svo sem þær verða.