139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[21:38]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Þór Saari fjallaði lítillega um það mál sem er á dagskrá og ræddi aðallega um frumvarp Hreyfingarinnar. Hann kallaði þetta pottaglingur og krukk stjórnvalda og gaf ekki mikið fyrir þessi tvö frumvörp ef ég skildi hann rétt. Það athyglisverða gerðist að hæstv. sjávarútvegsráðherra fór í andsvör um mál sem er ekki einu sinni á dagskrá, hann hafði nú ekki meiri þrótt til þess að verja sitt eigið mál en svo.

Mig langar að beina einni spurningu til hv. þm. Þórs Saaris því að hann fjallaði nánast ekkert efnislega um það frumvarp sem er á dagskrá. Þar sem hann hefur verið til sjós spyr ég hvað honum finnist um þann nýja strandveiðibát sem er innbyggður í frumvarpið, þ.e. undir 3 brúttótonnum. Þá er ég aðallega að hugsa um út frá öryggismálum. Við hv. þingmaður höfum stundað sjómennsku, og hvað finnst honum, út frá öryggismálum sjómanna, um það að búa til enn einn flokkinn (Forseti hringir.) í þessum litlu bátum?