139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[21:39]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Mér er ljúft og skylt að svara þessari spurningu hv. þingmanns. Öryggismál sjómanna voru þau atriði sem ég kom mjög mikið að á mínum tíu ára sjómannsferli. Ég hef enga ástæðu til að ætla annað en að sjómönnum sjálfum sé fyllilega treystandi fyrir því að velja á hverju þeir róa til að sækja fiskinn og hvort þeir róa og í hvaða veðri. Vissulega eru veðravíti allt í kringum landið og vissulega er sjósókn á mjög litlum bátum oft varasöm, en hvað á að hafa mikið vit fyrir mönnum? Á ekki að gefa sem flestum tækifæri til að geta annaðhvort keypt sér aflaheimildir eða sótt sér fisk samkvæmt strandveiðiheimildunum og landað þeim afla? Við verðum einfaldlega að gera ráð fyrir því að íslenskir sjómenn séu skynsamir. Þeir hafa verið það að flestu leyti í árhundruð og ég sé enga ástæðu til að efast um að þeir séu það áfram.