139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[21:40]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svo það fari ekki á milli mála er ég sammála hv. þingmanni um að íslenskir sjómenn séu skynsamir. Það er hins vegar staðreynd að þegar menn búa við sóknarmarkskerfi — og það þekki ég, alveg sama hvort bátar eru litlir eða aðeins stærri — er meiri hætta á slysum. Þá hafa menn ákveðna daga til að róa, eru í samkeppni við aðra og geta sleppt því að fara á sjó þegar þeir telja veður tvísýnt. Þetta eru afskaplega litlir bátar sem við erum að tala um, 3 brúttótonna bátar. Þetta eru mjög litlir bátar. Hættan er sú að menn fari að taka óþarfa sénsa, þó að ég taki undir með hv. þingmanni um að auðvitað eru sjómenn alla jafna mjög skynsamir menn. Þetta eru hins vegar staðreyndirnar sem blasa við, sagan segir okkur þessa hluti. Það var þess vegna sem ég kallaði eftir viðbrögðum hjá hv. þingmanni við því að búa sérstaklega til nýjan pott um þetta. Að mínu mati munu menn nú fara að framleiða báta inn í þennan flokk, þ.e. miklu smærri báta. Það er þetta sem ég vildi fá fram hjá hv. þingmanni.