139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[21:43]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Þór Saari fyrir að hafa lagt þetta frumvarp fram. Ég var reyndar ekki alveg undir það búinn að fara að ræða akkúrat þetta frumvarp, ég hélt að það væri annað mál á dagskrá. Hvað um það, það sem mér finnst merkilegt í þessu frumvarpi er 5. gr. Í henni segir:

„Við gildistöku laga þessara skal sérstakur sjóður, kvótaskuldasjóður, taka við réttindum og skyldum skuldara allra krafna á hendur íslenskum útgerðum vegna kaupa eða leigu á aflaheimildum.“

Nú er talið að um það bil helmingur skulda útgerðarinnar, í kringum 250 milljarðar, sé kominn til vegna kvótakaupa. Síðan eru reglur um hvernig á að greiða skuldir þessa kvótaskuldasjóðs. Mér reiknast til að það gæti tekið 200–250 ár (Forseti hringir.) að greiða skuldir sjóðsins miðað við reglurnar sem hér eru settar fram.

Vill hv. þingmaður upplýsa mig um hvort (Forseti hringir.) þetta er í námunda við það sem hann hafði ímyndað sér?