139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[21:44]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Hugmyndir okkar um kvótaskuldasjóð og afskriftir skulda vegna kvótakaupa eru til komnar af réttlætissjónarmiðum. Þótt það hafi verið óheimilt að lána fé gegn veðum í kvóta var það engu að síður gert. Okkur finnst ekki endilega mjög þægilegt umhugsunarefni að þær útgerðir sem skulda vegna slíkra kvótakaupa fari allar á hausinn. Þess vegna leggjum við til að skuldir vegna kvótakaupa verði afskrifaðar og færðar í þennan sjóð.

Það er ekki á hreinu hversu miklar skuldir eru vegna kvótakaupa. Það er talið að skuldir sjávarútvegsins séu í kringum 436 milljarðar í heildina, ef ég man rétt tölurnar frá Hagstofunni. Hversu mikið af þeim er vegna kvótakaupa er óljóst. Það er hins vegar unnið að greiningu á því og hvort hægt sé að komast að því hversu há sú tala er. Engu að síður mun þessi kvótaskuldasjóður létta þessari skuldabyrði af útgerðunum og gera þeim kleift að starfa áfram óhindrað. Ég mun svo klára þetta svar mitt í næsta andsvari.