139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[21:47]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er að sjálfsögðu hugsað eins langt og hægt er að hugsa það miðað við þær upplýsingar sem liggja fyrir um skuldir útgerða á Íslandi. Hvort þetta 5% gjald sé nægilegt verður að koma í ljós þegar búið er að finna út hve miklar þessar skuldir eru. Þeir sem hafa lánað til þessara kvótakaupa munu fá sinn höfuðstól allan endurgreiddan á einhverju ákveðnu tímabili. (Gripið fram í.) Vegna þess að þeir hafa lánað til þessara kaupa með ólögmætum hætti að öllum líkindum, a.m.k. á mjög gráu svæði, leggjum við til að þetta brask með veiðiheimildir sem fjármálastofnanir hafa tekið þátt í leiði ekki til þess að þær komi út úr því með umtalsverðum hagnaði. Þess vegna verða skuldir kvótaskuldasjóðs ekki vaxtaberandi, heldur munu menn eingöngu fá höfuðstólinn greiddan til baka.

Það er svo útfærsluatriði hvort það þurfi að gerast hraðar eða hægar en með 5% gjaldi á uppboðnar aflaheimildir. Það getur verið að það þurfi að verða breyting á því, en þangað til við vitum nákvæmlega hverjar þessar upphæðir eru er ekki hægt að útfæra þetta neitt frekar.