139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[21:51]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Kristján Þór Júlíusson virðist ekki trúa því að flutningur aflaheimilda frá sjávarbyggðum hafi haft áhrif á byggðirnar. Ég er ósammála því. Ég tel að hv. þingmaður, sem hefur það m.a. á samviskunni að vera í þeim flokki sem hefur helst stuðlað að því að rústa byggðum hringinn í kringum landið með breytingum á fiskveiðistjórnarkerfinu, tali hér eins og hann gerir vegna þess að hann er með slæma samvisku.

Ég held að sú breyting sem gerð var þegar framsal aflaheimilda var gefin frjáls hafi verið stórskaðleg fyrir bæði byggðirnar í kringum landið og fyrir allan móralinn í samfélaginu sem bjó t.d. til hugtakið sægreifi. Þeirri þróun þarf einfaldlega að snúa við og vinda ofan af, því að þetta hefur valdið mikilli óánægju í öllu samfélaginu í yfir 20 ár. Það er bara komið nóg. Við þurfum með einhverjum hætti að snúa til baka og leiðrétta það.