139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[21:59]
Horfa

Þór Saari (Hr) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég sagði í máli mínu að frumvarp Hreyfingarinnar væri ágætis sáttaleið í þessu máli og mér heyrist nú á mönnum að það sé að nást saman á milli þeirra. Ég ræddi aldrei um neitt annað mál en fiskveiðimál í málflutningi mínum. Þó að ég hafi tekið atriði úr frumvarpi Hreyfingarinnar sem eru mikilvæg eru það þau atriði sem vantar nákvæmlega í frumvarp sjávarútvegsráðherra og sem þarf að ræða. Það er ekki mér að kenna að þau vanti í frumvarpið hans. En mér er skylt og ljúft að koma hér upp og benda á það og ræða þau mál sem vantar einmitt í það frumvarp. Það eru þau mál sem ég ræddi. Þess vegna lögðum við í Hreyfingunni fram þetta frumvarp einmitt til að fá umræðu um þau mál sem okkur finnst (Gripið fram í.) vanta í frumvarp hæstv. sjávarútvegsráðherra. Það er bara mjög gott að við skulum fá að ræða þau í þaula. Við fáum þá þá umræðu sem þörf er á. Þingmenn mega ekki vera viðkvæmir fyrir því þótt verið sé að ræða eitthvað sem þeir eru hræddir við, það er hluti af geiminu að taka þátt í þeirri umræðu.