139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[22:01]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég held að ágreiningur okkar félaganna risti nú ekki djúpt. Það sem ég benti á í athugasemdum mínum við fundarstjórn forseta var að mér þótti mjög dapurlegt og eiginlega mjög sérkennilegt að þegar hv. þm. Þór Saari setti út á frumvarpið sem hæstv. ráðherra mælti fyrir og benti á það sem honum fannst vanta í það, reyndi hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra ekki einu sinni að verja það og benda á markmið sín sem tengdust byggðasjónarmiðum. Mér þótti mjög merkilegt að upplifa að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra færi í andsvar um frumvarp sem er ekki á dagskrá þegar verið er að ræða hans eigið frumvarp. Það þótti mér mjög sérkennilegt.

Vegna þess að ekki eru margir til að verja hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra þá verð ég að hvetja hæstv. utanríkisráðherra, af því að hann er að mati hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra öflugasti maður í sjávarútvegsmálum í ríkisstjórninni, að setja sig á mælendaskrá og taka þátt í umræðunni fyrst hann er í þingsalnum svo við getum átt almennileg skoðanaskipti.