139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[22:04]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Í umræðunni sem staðið hefur í dag hefur margt athyglisvert komið fram. Ég hef ekki getað hlustað á allar ræður en margar hafa verið afar athyglisverðar og menn farið um víðan völl um sjávarútvegsmál í heild sinni. Í sjálfu sér er ekkert óeðlilegt að einhver önnur frumvörp blandist í þetta eða ekki, ég ætla ekki að blanda mér í það. Ég verð þó að viðurkenna að ég hef ekki lesið frumvarpið sem hv. þm. Þór Saari hefur lagt fram og get því ekki rætt það.

Með leyfi forseta vil ég hefja mál mitt á að lesa upp smátilvitnun sem er á þessa leið:

„Það er […] afar mikilvægt að skapa greininni bestu rekstrarskilyrði sem völ er á og treysta þannig rekstrargrundvöllinn til langs tíma, en jafnframt verði leitað sátta um stjórn fiskveiða.“

Einnig er fjallað um að veiðiheimildir skuli ákvarðast af nýtingarstefnu sem byggist á aflareglu hverju sinni. Að lokum er talað um að fiskveiðar umhverfis landið séu hagkvæmar og skapi verðmæti og störf, en jafnframt sjálfbærar og vistvænar í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar, o.s.frv.

Virðulegi forseti. Það sem ég sagði hér um bestu rekstrarskilyrði sem völ er á og að treysta eigi þannig rekstrargrundvöll til langs tíma er ekki tekið upp úr aðalfundarályktun LÍÚ eða Landssambands smábátaeigenda eða einhverju þess háttar. Þetta stendur í stefnuyfirlýsingu núverandi hæstv. ríkisstjórnar. Eftir þessu vil ég vinna og að farið sé eftir. Þar er jafnframt talað um sameign þjóðarinnar á þessari auðlind sem og öðrum auðlindum. Úthlutun aflaheimilda verði tímabundinn afnotaréttur sem myndi ekki undir neinum kringumstæðum eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir heimildum. Þar er fjallað um nefndarálit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna, um frekari fullvinnslu afla hérlendis, aukna veiðiskyldu, um að stofna auðlindasjóð þar sem arður af rekstri sjóðsins renni til atvinnuuppbyggingar o.s.frv. Þetta eru allt hin göfugustu verk og eftir þeim vil ég vinna.

Áður en ég hverf frá því þar sem fjallað er um sátt um stjórn fiskveiða tók ég eftir því einhvern tímann þegar ég las endurskoðunarskýrsluna, sem er dálítið langt síðan, að í skipunarbréfi hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra til nefndarinnar stóð að skapa skyldi sem víðtækasta sátt um stjórn fiskveiða meðal þjóðarinnar. Orðið „víðtækasta“ var komið inn. Eftir á að hyggja held ég að það sé bara betra vegna þess að ég held að við náum aldrei allsherjarsátt, það verður seint, því miður. Sem víðtækastri sátt er hægt að ná og eftir því vil ég vinna.

Virðulegi forseti. Á þeim 15 mínútum sem ég hef til afnota ætla ég að gera að umtalsefni það sem kom fram í áliti meiri hluta starfshópsins sem kallast endurskoðunarnefnd. Þar stendur m.a., með leyfi forseta:

„Meiri hluti starfshópsins telur að með tilliti til settra markmiða og kröfu um jafnræði og meðalhóf sé rétt að endurskoða fiskveiðistjórnarkerfið með sjálfstæðri löggjöf sem taki hliðsjón af auðlindastefnu almennt er byggist á hugmyndum um samningaleið. Meiri hluti starfshópsins telur rétt að gerðir verði samningar um nýtingu aflaheimilda og þannig gengið formlega frá því að auðlindinni sé ráðstafað af ríkinu gegn gjaldi og að eignarréttur ríkisins sé skýr. Samningarnir skulu m.a. fela í sér ákvæði um réttindi og skyldur samningsaðila, kröfur til þeirra sem fá slíka samninga, tímalengd og framlengingu samninga, gjaldtöku, aðilaskipti, ráðstöfun aflahlutdeilda sem ekki eru nýttar, meðferð sjávarafla o.fl. Mismunandi skoðanir voru innan hópsins um útfærslu á einstökum atriðum slíkra samninga.

Meiri hluti starfshópsins er sammála um að mæla með að aflaheimildum verði skipt í „potta“ þar sem annars vegar eru aflahlutdeildir og hins vegar bætur og ívilnanir, svo sem byggðakvóti, strandveiðar og aðrar sérstakar ráðstafanir. Gæta skal jafnræðis við úthlutun nýrra aflaheimilda eða heimilda sem komi til endurúthlutunar með opinberum markaði.“

Þetta er úr endurskoðunarskýrslunni, þessu stóra mikla plaggi sem skilað var í september á síðasta ári og var sett saman og stutt af 18 nefndarmönnum af 20 ef ég fer rétt með töluna, ég verð vonandi leiðréttur ef það er ekki rétt, þar með talið fulltrúum ýmissa hagsmunaaðila, svo sem LÍÚ, smábátaeigenda og stjórnmálaflokkanna allra sem þarna komu að nema Hreyfingarinnar, er sagt hér.

Þetta er sá grunnur, ásamt því sem ég las upp úr stefnuyfirlýsingu hæstv. ríkisstjórnar, sem við eigum að byggja á. Þar er sáttin. Við eigum að gera það sem hér er talað um og það sem okkur hefur dreymt um frá því fiskveiðistjórnarkerfið var sett á fyrir 27 árum, að skapa meiri sátt í þjóðfélaginu um þessa mikilvægu atvinnugrein. Ég hef sagt: Að því vil ég vinna.

Virðulegi forseti. Hér stendur að einstakir aðilar hafi mismunandi skoðanir á útfærslu á einstökum atriðum slíkra samninga. Um það snúast kannski deilurnar um frumvarpið sem lagt hefur verið fram. Þess vegna segi ég: Ég held að það sé af hinu góða að við tökum það til umræðu og komum því til nefndar til vinnu. Ég á enga ósk heitari og ég vil vinna að því að skapa sem mesta sátt, eins og stendur í stjórnarsáttmálanum, eða að minnsta kosti sem víðtækastri sátt eins og hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sagði í skipunarbréfi sínu til endurskoðunarnefndarinnar.

Þetta er verkefni okkar alþingismanna. Eftir þessu kallar þjóðin. Beðið er um breytt vinnubrögð á Alþingi vegna þeirra deilna sem sífellt eru hér háværar og birtust m.a. í upphafi þingfundar í dag og voru ekki þessari stofnun eða okkur sem störfum hér til eftirbreytni eða til álitsauka. Þessa vegferð skulum við fara í og þá verða allir að gefa eitthvað eftir af sínu, jafnt LÍÚ og eins og ég hef stundum sagt, mestu frekjuhundarnir þar — og sjónarmið meðalhófsmannanna sem tala um að þeir hafi nýtingarrétt verði höfð meira í frammi — og einnig samtök víðs vegar í landinu sem vilja nánast ganga milli bols og höfuðs á greininni með aðferðum sem mundu hafa þær afleiðingar að bestu fáanleg rekstrarskilyrði yrði ekki til eftir það.

Af hverju í ósköpunum, virðulegi forseti, getum við sem sitjum á Alþingi ekki klárað þetta á þennan veg? Ég ber þá von í brjósti að það sé hægt.

Ég hef, eins og komið hefur fram, lýst fyrirvara um einstaka þætti frumvarpa, eins og gengur og gerist og ég áskil mér rétt að flytja breytingartillögur eða styðja aðrar. Ég hef líka sagt að ekki hafi hvarflað að mér eitt augnablik að þetta frumvarp, samanber mörg önnur og flest sem koma til Alþingis til 1. umr., taki ekki breytingum í meðförum Alþingis í nefndum. Það er verkefni okkar alþingismanna. Til þess höfum við þetta lag á 1. umr. þegar málið er reifað og þingmenn geta viðrað skoðanir sínar eins og ég geri hér og allir hafa verið að gera í dag. Málið fer til nefndar og til umsagnar, kallað er á gesti og reynt að leita leiða til að fá það besta fram. Skynsamlegar tillögur koma utan úr bæ því betur sjá augu en auga og við spyrjum hvort eigi að setja þær inn. Málið fer síðan til 2. umr. sem er aðalumræðan og fram fer atkvæðagreiðsla um breytingartillögur. Síðan er komið að 3. umr. Að henni lokinni getur viðkomandi frumvarp orðið að lögum. (Gripið fram í.) Í þeirri vegferð, virðulegi forseti, breytist margt í frumvörpum. Það höfum við séð á þessum vetri.

Virðulegi forseti. Á þessum stutta tíma sem ég hef vil ég geta þess að í nefndaráliti allrar iðnaðarnefndar um byggðaáætlun var sett inn merkileg klásúla þar sem bent var á mikilvægi landbúnaðar- og sjávarútvegs fyrir landsbyggðina. Þar var getið um að einstakt tækifæri gæfist til að stíga það skref og vinna þá vinnu að skapa sem mesta sátt um þessa atvinnugrein sem byggðist á tillögum endurskoðunarnefndarinnar sem ég vitnaði í í byrjun og kölluð er samningaleiðin. Ég hef stundum mismælt mig og kallað hana sáttaleið og það er kannski frekar það sem kemur frá hjartanu, að þetta sé sáttaleiðin sem við erum að vinna að. Við skuldum íslensku þjóðinni, virðulegi forseti og alþingismenn, að ganga þessa göngu. Ég ítreka það sem ég sagði áðan: Það er hægt.

Ég sakna þess svolítið að hv. framsóknarmenn sem hafa fjallað um málið í dag skuli ekki gera meiri grein fyrir þeim ályktunum sem landsþing Framsóknarflokksins gerði um sjávarútvegsmál. Ég ætla að eyða þeim fjórum mínútum sem ég á eftir, virðulegi forseti, í að fjalla aðeins um þær vegna þess að ég held að ég geti tekið undir þær allar. Það er nánast bara eins og ég sé að verða framsóknarmaður (Gripið fram í.) en ég er framsækinn maður.

Virðulegi forseti. „Framsóknarflokkurinn leggur mikla áherslu á að ná sem víðtækastri sátt meðal þjóðarinnar, jafnt ólíkra pólitískra afla og hagsmunaaðila innan greinarinnar.“ Getum við ekki tekið undir þetta? Jú.

„Stjórn fiskveiða verði blönduð leið, annars vegar á grunni aflahlutdeildar á skip og hins vegar úthlutun veiðiheimilda sem taki mið af sértækum byggðaaðgerðum, hvatningar til nýsköpunar og auðvelda aðgengi nýrra aðila að útgerð.“ Jú, við getum tekið undir þetta.

„Tryggja verður sameign þjóðarinnar á sjávarauðlindinni m.a. með ákvæði í stjórnarskrá.“ Já, já.

„Úthlutun veiðileyfa verði gerð með þeim hætti að skilgreina tvo potta. Pottur 1 þar sem gerður verði nýtingarsamningar til …“ Hvað skyldi Framsóknarflokkurinn vilja mörg ár? 20 ár.

„… til u.þ.b. 20 ára, á grunni aflahlutdeildar á hvern bát. Samningurinn verði á milli ríkisins og íslenskra aðila sem haft hafa búsetu á Íslandi að minnsta kosti síðustu 5 ár. Samningurinn verður endurskoðaður á 5 ára fresti […].“

Ég vek athygli á því, virðulegi forseti, að Framsóknarflokkurinn talar um 20 ár en í frumvarpi ríkisstjórnarinnar er talað um 15 ár plús 8 sem gera 23. Svo getum við tekist á um það í nefnd, eins og við gerum í iðnaðarnefnd um nýtingartíma orkuauðlinda. Það sýnist sitt hverjum hvað á að gera. (Gripið fram í: Það eru nú meiri átökin.) Engin átök, ekki frekar en í öðrum málum í nefndinni.

„Í nýtingarsamningi verði m.a. ákvæði um veiðiskyldu og takmarkað framsal.“ Halló, halló. [Hlátur í þingsal.]

Ég tek það skýrt fram að ég er að lesa upp úr ályktun flokksþings Framsóknarflokksins. Nú veit ég ekki hvað liggur á bak við og auðvitað þarf að útskýra það sem sett er hér á blað. (Gripið fram í.)

„Settar verði takmarkanir á óbeina veðsetningu aflaheimilda […].“ (Gripið fram í: Já.) Hafið þið heyrt þetta áður? Já, það er fjallað um þetta í frumvarpi ríkisstjórnarinnar og það er eitt af því sem LÍÚ og forsvarsmenn þeirra gagnrýna. En auðvitað verður það þannig, eins og önnur verk sem við gerum hér og hefur ekki komið fram í umræðunni, að ekkert af þessu verður afturvirkt, ekki frekar en nýtingarsamningar orkuauðlinda sem boðað er að stytta og við erum að vinna með í iðnaðarnefnd. Í frumvarpinu kemur skýrt fram að það verði ekki afturvirk ákvæði, enda getum við það ekki vegna stjórnarskrárinnar. (Gripið fram í: Brosa — þú ert að flytja fagnaðarerindið.)

Hér kemur fram í ályktuninni að breytingarnar verði þó ekki afturvirkar.

„Greitt verði fyrir nýtingarréttinn með árlegu veiðigjaldi.“

Svo er fjallað um pott 2. Hann byggist á fiskvinnslu, ferðaþjónustuveiðum, nýsköpun, strandveiðum, nýliðunarpotti o.s.frv. Ég held að þetta sé einum potti færra en í frumvarpi ríkisstjórnarinnar. (Gripið fram í.) Hér er talað um byggðatengdar aðgerðir og hvernig þetta eigi að vaxa, o.s.frv.

Virðulegi forseti. Hér hef ég eytt dýrmætum tíma mínum til að útskýra það sem gerðist á flokksþingi Framsóknarflokksins (Gripið fram í.) ekki alls fyrir löngu. Ég hefði nú talið að varaformaður Framsóknarflokksins hefði átt að gera það í ræðu sinni í dag, hún hefði þá orðið miklu betri. (BJJ: Gert það á sex mínútum.) Ég tek þetta aðeins sem dæmi vegna þess að þetta er rökstuðningur minn fyrir því að hægt sé að vinna hér verk til sátta, til meiri sátta eða í sem víðtækastri sátt eins og hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sagði.

Rétt í lokin skulum við hafa það í huga að sjávarútvegurinn er undirstöðuatvinnugrein okkar Íslendinga, þar vinna í kringum 7.200 manns í dag. Þeim hefur fækkað vegna tækninýjunga og samþjöppunar en störfum hefur fjölgað annars staðar. Talið er að um það bil 25.000 störf séu í kringum sjávarútveginn. Sjávarútvegurinn flutti út vörur fyrir 220 milljarða kr. á síðasta ári sem er um 40% alls vöruútflutnings í landinu.

Síðan en ekki síst, virðulegi forseti, og það skal sagt á síðustu sekúndum mínum: Sjávarútvegurinn (Forseti hringir.) er undirstaða flestallra byggðarlaga vítt og breitt um landið og því vil ég segja að í þeirri vegferð og þeim deilum sem hafa verið frá árinu 1983 (Forseti hringir.) er komið að þessu verkefni núna. (BJJ: Besta ræða sem þú hefur flutt, Kristján.) (Gripið fram í: Lengi lifi Framsókn!)