139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[22:21]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna vegna þess að hún gefur mér tækifæri til að segja það sem ég hefði e.t.v. átt að segja: Forseti. Jú. Þar með væri það orðin stysta ræða Alþingis. Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni um það eins og komið hefur fram í dag, hér er um að ræða að taka fyrsta skrefið varðandi auðlindasjóðsgjald. Að sjálfsögðu á að taka auðlindagjald af fallvötnunum, jarðvarmanum, fjarskiptarásunum og fleiru og það á að renna inn í sameiginlegan sjóð, auðlindasjóð Íslands. Að sjálfsögðu er ég sammála því. Það hefði verið betra að þannig sjóður hefði verið til frá byrjun kvótakerfisins. Hann hefði þá verið hægt að nota til að endurskipuleggja störf í hinum dreifðu byggðum landsins þar sem störfum hefur fækkað vegna hagræðingar og tækniframfara í sjávarútvegi. Þá væri staðan öðruvísi á Íslandi, sérstaklega á landsbyggðinni.