139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[22:23]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Samkvæmt 6. gr. litla frumvarpsins, sem svo er farið að kalla, er það ákvæði sem hv. þingmaður spurði mig út í, þ.e. hvernig veiðileyfagjaldið er reiknað út. Það er mjög sérstakt. Þar stendur að hinn helmingurinn skiptist milli sjö landshluta, fyrir utan höfuðborgarsvæðið, í hlutfalli við verðmæti landaðs afla að frádregnum afla vinnsluskipa síðastliðin 15 ár. (Gripið fram í: Hvers lags er þetta?)

Virðulegi forseti. Þetta er eitt af þeim atriðum sem ég hef ekki skilið. (Gripið fram í.) Þetta er eitt af þeim atriðum sem ég hafði fyrirvara um. Ég hef spurt mig og leitað eftir svari við því — og sú leit stendur enn yfir — hvort þetta sé sett svona fram vegna þess að það er misjöfn staða milli kjördæma. (BJJ: Það er nú málið.) Ég geri mér ekki grein fyrir því.

Eins má nefna það ákvæði sem er einhvers staðar í þessu litla frumvarpi og (Forseti hringir.) beinist nánast að einu fyrirtæki, þ.e. Síldarvinnslunni, um uppskiptingu þar. Ég hef ekki skilið af hverju (Gripið fram í.) þarf að setja það sérstaklega í frumvarpið.