139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[22:26]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að útskýra það í stuttum andsvörum hvað þarf að laga til þess að skapa sem mesta sátt. Það getur vel verið að ég hafi ekki nefnt það í ræðu minni áðan en einn af fyrirvörunum var hagfræðiúttektin. Ég vil að það komi fram opinberlega að hana þurfi að leggja fram. Sagt er í frumvarpinu að hennar sé að vænta í byrjun júní. Þegar þetta mál fer til nefndar verður að leggja hagfræðiúttektina þar fram.

Virðulegi forseti. Hvað varðar sáttaleiðina sem ég gerði að umtalsefni — ég las upp úr skilabréfi þar sem ég benti á að allir flokkar nema Hreyfingin skrifuðu upp á, þar með talið Sjálfstæðisflokkurinn — er þessi vegvísir sem ég vil nota til sátta um kerfið ásamt því sem ég ítreka, og það kom fram í skilabréfinu, að aðilar hafa fyrirvara um einstaka útfærslu. Það er ósköp eðlilegt. Ef ekki hefur náðst að vinna allar útfærslur og setja þær í frumvarpið er það bara verkefni viðkomandi nefndar (Forseti hringir.) og okkar þingmanna vegna þess að við munum öll fjalla um það, öll 63.