139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[22:30]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ef það er mat allra að svo sé er það verkefni okkar þingmanna að lagfæra þá hluti. Það er einfaldlega þannig.

Það er þannig og hefur verið öll þau ár sem ég hef setið á þingi að það er mjög misjafnt hvernig frumvörp eru unnin og sett fram. Ég minnist þess t.d. í minni samgönguráðherratíð að fjölmörg frumvörp sem við gerðum klár og voru unnin þess vegna úti í bæ af sérfræðingum voru svo sett á vefinn hjá okkur og kallað eftir athugasemdum. Fjölmargar athugasemdir komu inn frá almenningi í landinu og oft og tíðum var tekið tillit til þeirra. Ég hygg að eitt frumvarp sé inni í samgöngunefnd núna, þ.e. umferðarlagafrumvarpið, þar sem komu margar góðar ábendingar.

Ég ítreka það sem ég hef áður sagt, virðulegi forseti, og ég þakka formanni Sjálfstæðisflokksins fyrir þetta andsvar, að það er hægt að ná sátt um þetta. En má ég misnota tíma minn í andsvari hér sem hv. þingmaður á við mig með því að spyrja hv. þingmann: Stendur Sjálfstæðisflokkurinn ekki örugglega á bak við það sem kemur (Forseti hringir.) fram, og ég las hér í upphafi ræðu minnar, í niðurstöðu meirihlutaálits starfshópsins, þ.e. endurskoðunarnefndarinnar?