139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[22:33]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hér hefur komið fram ítrekun frá formanni Sjálfstæðisflokksins um að Sjálfstæðisflokkurinn standi við það sem kom fram í þessu meirihlutaáliti og það er gott. Hv. þingmaður vitnar hér líka í frumvarpssmíð árið 1990 þegar breytingar voru gerðar á fiskveiðistjórnarkerfinu og að þá hafi verið víðtæk sátt meðal hagsmunaaðila. Ég hygg þó, án þess að ég hafi flett þessu upp, að þar hafi vantað fulltrúa kannski stærsta hagsmunaaðilans, þ.e. almennings í landinu, þjóðarinnar sem á auðlindina. Hvernig við veljum þá til slíkrar vinnu er aftur á móti annar handleggur en þar kemur til það sem ég vitnaði til áðan þegar frumvörp eru sett á vef viðkomandi ráðuneytis og þeim lýst og almenningi svo gefinn kostur á að gera athugasemdir. Það gerist nefnilega ekki oft í meðförum nefnda Alþingis að svo sé gert. (Gripið fram í: Þeir eiga sína fulltrúa hér.) Þar hefur það líka verið gert. Það er vissulega rétt, við (Forseti hringir.) 63 alþingismenn erum fulltrúar þjóðarinnar og ólíkra hópa og þá eigum við auðvitað að taka það fram og þar koma þau sjónarmið fram. Og erum við ekki að gera það hér (Forseti hringir.) núna?