139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[22:36]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður gerir hér að umtalsefni kaup og sölu aflaheimilda og tekur dæmi sem er alveg hárrétt. Það dæmi er í raun og veru eitt af þeim atriðum sem ég hef stundum haft efasemdir um eða haft fyrirvara á um að gangi upp. Það er akkúrat þetta. Tökum bara nýleg dæmi um þá sem keyptu aflaheimildir — eigum við að taka staðardæmi frá Flateyri? — vorið eða sumarið 2007 og fengu svo 30% skerðingu nokkrum vikum eða mánuðum seinna. Þetta er það kerfi sem við bjóðum upp á í dag og við þekkjum það, þeir sem þekkja vel til í sjávarbyggðum landsins eins og við gerum, landsbyggðarþingmenn og vonandi höfuðborgarþingmenn líka að sjálfsögðu, að þar eru miklir erfiðleikar. En, virðulegi forseti, hv. þingmaður er að benda á einn agnúann á því kerfi sem er í dag, sem er mjög (Forseti hringir.) alvarleg staða vegna þess að svona getur þetta ekki gengið.