139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[22:38]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, þetta verður eilíft deiluefni hvað þetta varðar og hugsa ég nú til 1. gr. fiskveiðistjórnarlaganna sem sagt er að alþýðuflokksmenn hafi komið inn á sínum tíma, sem er árétting á því að fiskurinn í sjónum sé sameign þjóðarinnar og myndi aldrei eignarrétt og menn kaupa og selja aflaheimildir eftir því. Ég var ekki í þingsal þegar hv. þm. Jón Gunnarsson hélt ræðu sína í dag en ég hlustaði á hana. Þar var margt sem ég get tekið undir, eins og t.d. það atriði sem hv. þingmaður gat um og er af sama meiði og við nefndum hér, þ.e. um þá sem selja heimildir og fara úr greininni með fullt af peningum. Hinum megin er þá einhver sem kaupir, sem ég tek hattinn ofan fyrir, sem ætlar þá að halda áfram að berjast í greininni, að veiða fisk og vinna fisk og skapa verðmæti og skapa vinnu. Þeir verða fyrir barðinu á þessu en við náum ekki í hina. Þetta er enn einn angi (Forseti hringir.) af því slæma fiskveiðistjórnarkerfi sem er í dag vegna þess að þetta er það versta. Það er þetta sem særir siðferðiskennd þjóðarinnar þegar menn selja sig út úr greininni og við náum ekki (Forseti hringir.) í þá en ætlum að refsa þeim sem kaupa.