139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[23:04]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni fyrir hans ágætu ræðu hér áðan sem ég reyndi að hlusta á með athygli. Hv. þingmaður gerði aðallega tvær greinar frumvarpsins að umfjöllunarefni þó að hann hafi farið víða yfir frumvarpið að öðru leyti. Það var 2. gr. frumvarpsins sem hann ræddi um og taldi ekki vera góða. Hann hafði um það þau orð að það væri ótrúlegt að hún hefði ratað með þessum hætti hér inn. Þessi 2. gr. frumvarpsins snýst um það að öll skip sem fengið hafi úthlutun afla komi að því að greiða í svokallaða potta, þ.e. bætur og ívilnanir og byggðakvótann og allt þetta sem verið hefur.

Þegar ég sá þessa hugmynd fyrst fyrir tveim árum var ég sömu skoðunar og hv. þingmaður, leist satt að segja ekki á þetta og hafnaði þessari hugmynd við fyrstu skoðun og þráaðist við að taka sönsum í því. Þetta var rætt talsvert í endurskoðunarhópnum, þessi hugmynd, sem er komin frá þrem þingmönnum, hv. þingmönnum Gunnari Braga Sveinssyni, Ásbirni Óttarssyni og Einari Kristni Guðfinnssyni — þeir lögðu fram lagafrumvarp um þetta og töldu þetta vera sanngirnismál. Ég er þeim sammála um það núna eftir að hafa átt samtal við þá sem fluttu þetta mál. Ég tel það vera sanngirnismál að allir komi að því að greiða í þá potta sem pólitísk samstaða hefur verið um að hafa hingað til, þ.e. línuívilnun, byggðakvótinn í einhverri mynd o.s.frv., að það komi allir að því að greiða þarna inn sem fengið hafa aflahlutdeildum úthlutað.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann: Sér hann einhverja aðra sanngjarna leið (Forseti hringir.) til þess að gera þetta þannig að ekki komi mikil og aukin skerðing niður á þá sem þó eru í þessu kerfi, þ.e. aðallega þær fjórar tegundir sem koma til úthlutunar í tilteknum kvótum?