139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[23:08]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég er reyndar á þeirri skoðun að sú hugmynd sem þingmennirnir þrír lögðu hér fram á sínum tíma, á 138. löggjafarþingi, sé fær leið. Það þarf að vísu að fara ýmsar krókaleiðir að því, við erum til dæmis með aflaheimildir í sumum tegundum sem eru veiddar á ársgrunni, það er frá 1. janúar til 31. desember, á meðan aðrar heimildir eru frá 1. september og til loka ágúst hvert ár. Við erum með tegundir sem eru, eins og þingmaðurinn nefndi hér áðan — bæði deilistofna, veiðar utan lögsögu o.s.frv. þannig að þetta er ekkert einfalt mál. Ég er þeirrar skoðunar hins vegar að þetta sé sanngirnismál. Fyrst pólitísk samstaða er um þessar leiðir sem við höfum verið að fara varðandi hinar ýmsu ívilnanir og kvóta held ég að það sé sanngirnismál að það komi allir að því að greiða inn í þá með þorskígildunum. Ég tel því, ólíkt því sem þingmaðurinn nefndi hér áðan, að hægt sé að feta þessa leið inn.

Önnur grein sem hv. þingmaður gerði sérstaka athugasemd við áðan var 6. gr. í frumvarpinu, þ.e. um ráðstöfun á veiðigjaldinu. Ég get tekið undir mest af því sem hv. þingmaður sagði þar. Ég hef mjög einfaldan smekk í þessum málum, ég tel að tekjur eigi að ganga í ríkissjóð og ríkið eigi að reka á fjárlögum svona heilt yfir, það er mín skoðun á skatttekjum og tekjum ríkisins. (Gripið fram í.) Ég veit það og við höfum oft rætt þetta, ég og hv. þm. Kristján Þór Júlíusson, í fjárlaganefnd og á þeim vettvangi og það hefur farið í taugarnar á okkur talsvert lengi hve mikið er af mörkuðum tekjum og sértekjum sem fara fram hjá rekstri ríkisins til hinna ýmsu góðu verkefna.

Að lokum langar mig til að spyrja þingmanninn, í ljósi ræðu hans, þar sem hann gerði ekkert miklar athugasemdir við einstakar greinar nema þá helst þessar tvær, hvort hann telji þörf á því að gera einhverjar breytingar á (Forseti hringir.) lögum um stjórn fiskveiða, hvort hann telji þörf á að laga einhverja agnúa og (Forseti hringir.) gera einhverjar breytingar og hvaða breytingar það væru þá helst.