139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[23:11]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég byrja á síðustu spurningunni. Í núverandi ástandi tel ég það ekki forgangsverkefni stjórnvalda á Íslandi að breyta lögum um stjórn fiskveiða. Ég tel miklu brýnni verkefni bíða en akkúrat það. Með því er ég ekki að segja að ekki megi gera breytingar á lögunum. Ég tel bara að kröftum manna í ljósi þeirrar reynslu sem við höfum af þessu tveggja ára þrefi stjórnarflokkanna og innan þeirra beggja sýni okkur að viðfangsefnið er þannig vaxið að menn eiga að verja tíma sínum til annarra og þarfari og betri verkefna, það er bara þannig.

Útkoman út úr þessu samkvæmt mati fjárlagaskrifstofunnar, til dæmis í þessu frumvarpi sem hér liggur fyrir, er sú að ábatinn fyrir ríkissjóð af þessu þrefi í frumvarpinu séu 700 millj. kr. Ég segir bara: Garmurinn ríkissjóður er litlu bættari með þá fjárhæð eftir allt þetta streð og nú veit maður ekkert hvernig fer með restina af þessu.

Hv. þingmaður nefndi það hér varðandi 2. gr. að hann hefði fallist á hana í ljósi sanngirni. Ég veit ekki hvaða sanngirnismælikvarða við getum búið til þannig að allir verði sammála um hann, þetta verður ekki gert með neinum tommustokk. Mér er fullljóst að það eru þrír stjórnarþingmenn sem hafa borið upp þetta ákvæði. En ég spyr: Er einhver sanngirni í því að hv. þm. Björn Valur Gíslason — segjum að hann hafi sérhæft sig í því að reka ísbúð — verði að kaupa tvo hvolpa og leggja í sameiginlegan sjóð ef hann ætlar að halda áfram að selja ís? Fyrirtæki sem sérhæfir sig í uppsjávarveiðum, og stundar enga þorskveiði, er skyldað til að skerða heimildir sínar, sem enginn annar getur veitt, og þarf að gera það með því að (Forseti hringir.) kaupa þorsk af einhverjum öðrum og leggja í sameiginlegt púkk. Það hlýtur að vera til önnur leið en þessi.