139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[23:13]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Þegar við ræðum þetta frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða sem sjávarútvegsráðherra hefur lagt fram er óhjákvæmilegt að hefja umræðuna á aðdraganda málsins. Eins og fram hefur komið í umræðunni hefur á þessu kjörtímabili verið leitast við að skapa sátt um ákveðnar breytingar á fiskveiðistjórninni. Ríkur vilji hefur komið fram hjá öllum hagsmunaaðilum til að standa að slíkri sátt. Ekki hefur skort á vilja þingflokka til að skipa fulltrúa og taka þátt í slíkri sáttargjörð. Út kom í september 2010 skýrsla starfshóps um endurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða. Þar tókst sátt um ákveðin meginatriði. Reyndar er athyglisvert og rifjaðist upp fyrir mér þegar ég gluggaði í inngang skýrslunnar síðast í dag að rétt eftir að nefndin hafði hafið störf fór ráðherrann að breyta fiskveiðilöggjöfinni, þ.e. skipun nefndarinnar var ekki nema eins mánaðar gömul þegar hæstv. ráðherra hóf grundvallarbreytingar á fiskveiðilöggjöfinni eins og þegar sú breyting var lögð til á stjórnkerfi fiskveiða að ráðherra skyldi heimilt að ákveða aflamark í kvótabundinni tegund án tillits til aflahlutdeilda. Það var hið svokallaða skötuselsmál sem leiddi til þess meðal annarra efna að stöðugleikasáttmálanum var á endanum sagt upp, auðvitað vógu stórkostlegar vanefndir á öðrum loforðum þyngst á vogarskálunum. Þetta nefni ég til að vekja athygli á því að starf nefndarinnar var rétt við það að hefjast þegar ráðherrann hóf framlagningu frumvarpa á þingi sem snertu viðfangsefni nefndarinnar. Það ber ekki vitni um ríkan vilja til að ná sátt um málin í góðu samstarfi við alla hlutaðeigendur.

Síðan starfar nefndin með hléum næstu mánuðina og fram í september 2010 þegar þessi skýrsla er lögð fram. Eins og ég nefndi varð þar sátt um tiltekin grundvallaratriði. Þau varða meira hitt málið sem hefur verið hér á dagskrá í dag en ekki komist til umræðu, en þó einnig að nokkru þetta mál. Ég ætla líka að vísa til þess sem komið er inn á í þessari skýrslu, að margoft áður hafi verið látið reyna á víðtækt samráð um grundvallarbreytingar á fiskveiðistjórninni. Það var í aðdraganda lagasetningarinnar 1990 þegar við settum síðast heildarlöggjöf um stjórn fiskveiða og frá þeim tíma hafa margar nefndir starfað. Ég nefni tvíhöfðanefndina frá 1993, auðlindanefndina frá árinu 2000 og endurskoðunarnefndina frá 2001. Málefnið hefur verið á dagskrá meira eða minna á hverju kjörtímabili og hvort við þyrftum ekki að gera breytingar og aðlaganir til að koma til móts við þann veruleika sem við stóðum frammi fyrir á hverjum tíma.

Það sem einkennir þau frumvörp sem hafa verið lögð fram hér í dag, og einnig það sem við erum að ræða, er að það skortir algjörlega á að haldið sé til haga sömu grundvallaráherslum og hafa verið uppi í fyrri endurskoðunum fiskveiðistjórnarkerfisins, eins og þeirri grundvallaráherslu að fiskveiðistjórnarkerfi okkar þurfi að byggja á því að ná hámarksafrakstri af veiðunum. Er því haldið fram í þessu frumvarpi að þjóðarbúið í heild sinni muni vera betur sett nái þessar breytingar fram að ganga? Nei. Er því haldið fram að með þessu frumvarpi muni stofnarnir eflast? Nei, því er ekki haldið fram. Er því haldið fram í þessu frumvarpi að hagkvæmni í veiðum muni aukast vegna þess að það muni til dæmis draga úr fjárfestingu og afkastagetu fiskiskipaflotans? Nei. Er því haldið fram að ríkið muni vegna aukinnar arðsemi þeirra sem stunda fiskveiðar fá meira til sín í formi hærri skattgreiðslna? Nei, því er ekki haldið fram. Í þessu frumvarpi er því haldið fram að það sé hægt að gera breytingar sem auðveldi fleirum að taka þátt í veiðum við strendur landsins án þess að nokkru sé fórnað í hagkvæmninni. Það stenst því miður ekki. Hæstv. sjávarútvegsráðherra er þó einn fárra sem hefur viðurkennt að réttlætanlegt sé að gera breytingar á kerfinu þrátt fyrir að það muni ekki skila neinum þjóðhagslegum ávinningi vegna þess að hann telur það svo mikilvægt fyrir styrkingu einstakra byggða. Það sjónarmið er sannarlega lögmætt, það er sannarlega sanngjarnt og hefur verið haft uppi undanfarna áratugi í alls kyns breytingum á þeirri fiskveiðistjórn sem við höfum rekið. Ég nefni byggðakvótann sem er ekki nýr af nálinni. Hann er einmitt viðleitni til að koma til móts við miklar breytingar í einstökum byggðum. Ég nefni línuívilnunina sem annað dæmi og margvíslegar breytingar sem hafa verið gerðar á smábátaveiðum undanfarna tvo áratugi sem enduðu með því að smábátaveiðimenn sjálfir óskuðu eftir því að þeirra heimildir yrðu kvótabundnar. Fjölmargir þeirra hafa síðan selt sig út úr greininni og það stendur auðvitað upp á þann sem leggur þetta mál fram og þá sem styðja það að svara því hvaða sanngirni sé í því fólgin að þeir sem selt hafa sig út úr greininni geti nú að nýju komist inn í hana án þess að gjald komi fyrir með því að fá aflahlutdeildum úthlutað frá hæstv. ráðherra. Hvaða sanngirni er í því? Eða er það kannski viðurkennt af flutningsmönnum og stuðningsmönnum þessarar tillögu að það sé engin sanngirni í því en það sé réttlætanlegt af öðrum ástæðum? Ég á eftir að heyra þau rök.

Eftir því sem ég heyri þegar ég fer í sjávarbyggðir landsins er það almennt sjónarmið þar að langflestir þeirra sem stunda strandveiðar, sem hugmyndin er að stórauka við, hafi áður selt sig út úr greininni og séu að koma inn í hana aftur. Það er líka einróma álit þeirra að þær breytingar sem núverandi ríkisstjórn hefur verið að gera á kerfinu í þessa átt hafi leitt til þess að þeir bátar sem þarna er um að ræða hafi stórhækkað í verði. Ég ætla að staldra við sérstaklega það, því er ósvarað hvernig menn ætla að seðja þennan flota. Hvernig ætla menn að seðja flotann þegar hann mun halda áfram að vaxa? Ég get meira að segja sagt frá því að þegar ég hef tekið leigubíla héðan frá þingi heim til mín hef ég oftar en einu sinni hitt leigubílstjóra sem hafa sagt mér að þeir ætli að hasla sér völl í sjávarútvegi, þeir ætli að fjárfesta í bát til að hefja strandveiðar. Þeim mun að sjálfsögðu halda áfram að fjölga. Ég hygg að í fyrra hafi um það bil 700 bátar verið að veiðum. Þeim mun eftir atvikum fjölga, segjum upp í 800, eftir nokkur ár, einungis örfá ár. En mun fiskunum fjölga? Er eitthvað í þessu frumvarpi sem tryggir að afrakstur hvers og eins muni vaxa? Nei. Er eitthvað sem verður öðruvísi við þá fyrirsjáanlegu fjölgun báta sem sækja í sama pottinn? Er eitthvað öðruvísi við þessa fjölgun borna saman við það sem við höfum séð gerast áður? Þetta er alveg sami hluturinn. Það er eins og menn hafi ekkert lært, bara ekki neitt. Og í þessari umræðu er talað eins og að hér á landi séu einungis örfáir sægreifar, risaútgerðaraðilar, sem stundi veiðarnar en allir hinir sitji hins vegar á kajanum og horfi á eftir þeim sigla á miðin og komist ekki sjálfir. En þetta er ekki svona, þetta er ekki eins og í fjármálakerfinu á Íslandi þar sem örfáir risastórir aðilar gína yfir öllu eða í tryggingabransanum á Íslandi. Staðreynd málsins er sú að smáar og stórar útgerðir gera út um allt land.

Ég er nýbúinn að fara hringferð um landið þar sem ég hitti fyrir alls konar útgerðaraðila, suma með kvóta, aðra meira að segja án kvóta, menn með fiskvinnslur og stóra og litla aðila í fjölbreyttum útvegi. Margir hafa lagt mikið á sig til að komast yfir heimildir á grundvelli þeirra laga sem hér hafa gilt. Þeir spyrja ráðherrann og þá sem styðja þetta mál: Hvernig ætlið þið að réttlæta að heimildir verði nú teknar af okkur til að ráðstafa þeim handvirkt til einhvers annars? Hver er réttlætingin fyrir því? Hvers vegna er ekki komið inn á það í þessu máli að einhver réttlæting sé til? Hver er réttlætingin fyrir því að flytja störf frá Vestmannaeyjum á Snæfellsnesið? Eða Vestfirði? Eða af Vestfjörðum og austur á land? Er það vegna þess að ráðherrann telur sig búa yfir yfirskilvitlegri þekkingu á því að þar sé betra að gera út? Eigum við sem sagt að hverfa frá því að leyfa þeim sem gera út að finna út úr því sjálfir hvernig þessum hlutum er best fyrir komið? Það var áherslan sem lagt var upp með á árinu 1990 þegar núverandi hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra voru hér í þinginu og greiddu atkvæði með frumvarpinu sem þá var afgreitt. Þá voru menn einhuga um að vegna þess að útgerðin stóð á brauðfótum, vegna þess að útgerðinni gekk illa og vegna þess að afkastageta flotans var allt of mikil miðað við þann afla sem hægt var að sækja væri nauðsynlegt að búa þannig um hnútana að heimildirnar mundu rata til þeirra sem bestir væru í því að gera út. Nei, með þessu frumvarpi er komin ný aðferð til að finna út úr þessu. Hún er sú að láta hæstv. ráðherra gera það. Nýtt kerfi aukinnar miðstýringar á sem sagt að taka við. Getur einhver sem styður þetta mál sagt mér hvernig það á að auka hag þjóðarinnar? Er þetta réttlætismál sem gengur ofar arðsemissjónarmiðum?

Þegar ég tala um arðsemi af fiskveiðum vil ég koma því að, af því að hér hefur veiðigjaldið mjög oft verið nefnt og ekki að ófyrirsynju vegna þess að hluti af þessu frumvarpi felst í að hækka það, að veiðigjaldið er ekki eina leið þjóðarinnar til að fá arð af nýtingu hennar. Þjóðin fær mestan arð af nýtingu auðlindarinnar ef afrakstur veiðanna skilar mesta mögulega ávinningi til langs tíma. Það birtist í því að menn geti stundað hagkvæma útgerð, menn geti hagað veiðunum þannig að fiskurinn sé seldur þegar markaðurinn er með hæsta verðið, menn geti stundað veiðar þannig að þeir sæki fiskinn þegar líklegast er að þeir fái mest fyrir hann og að þeir geti unnið hann þannig að það muni skila mestum afrakstri. Af þeim hagnaði verða greiddir skattar, af þeirri starfsemi verða greidd laun og eftir því sem betur gengur mun sú starfsemi geta greitt hærri laun og eftir því sem launin verða hærri munu hærri skattar skila sér til ríkisins. Þetta er hluti af umræðunni sem er fram undan. Það er ekki bara veiðigjaldið.

Það er ágætt að minna á það hér að það var í ríkisstjórnartíð Sjálfstæðisflokksins sem veiðigjaldinu var á sínum tíma komið á. Við skulum hafa það skjalfest vegna þess að menn hafa svolítið farið í kringum þá umræðu í dag. Veiðigjaldið var sáttargjörð til að skapa víðtæka sátt. Ég geri ekki lítið úr því að það verður að ríkja mun betri sátt um nýtingu þessarar auðlindar, en þá verða menn líka að tala til þjóðarinnar um þau mál sem mestu skipta fyrir heildarhagsmunina. Og heildarhagsmunirnir eru þeir að íslenska fiskveiðiþjóðin stundi hagkvæma útgerð. Þar liggja sameiginlegir hagsmunir okkar. Þeir liggja ekki í því að auka vald ráðherrans. Þeir liggja ekki í því að búa til nýtt óseðjandi smábátakerfi sem kallar sífellt á fleiri heimildir til að taka meira af aflahlutdeildarkerfinu. Ég minni á að í skýrslu starfshópsins er þó það að finna að aflahlutdeildarkerfið eigi að vera grunnurinn, ekki satt? Með langtímasamningum. Hagsmunir okkar liggja ekki í því (Forseti hringir.) að bora göt á kerfi sem virkar vel. Hagsmunir okkar liggja ekki í því að tala um annað en það sem kemur heildarhagsmunum okkar sem þjóðar best.