139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[23:29]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er eðlilegt að byrja á því að spyrja formann Sjálfstæðisflokksins hvernig á því stendur að Sjálfstæðisflokkurinn er orðinn jafneinangraður í fiskveiðimálum og raun ber vitni. Kannanir sýna ekki aðeins að 7,4% þjóðarinnar deila skoðunum formanns Sjálfstæðisflokksins um að það kerfi sem við búum við sé gott og viðunandi heldur kemur það líka fram í umræðunum að ríkisstjórnarflokkarnir eru ekki bara sammála breytingunum heldur eru nýlegar samþykktir Framsóknarflokksins býsna nálægt þeirri stefnu sem hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur talað fyrir og Hreyfingin hefur fyrst og fremst hreyft þeirri gagnrýni að of skammt sé gengið í breytingum. Bæði á hinum pólitíska vettvangi og gagnvart almenningi í landinu virðist Sjálfstæðisflokkurinn vera algjörlega einangraður í málinu.

Þá hlýtur maður að spyrja: Yfir hverju er allur þessi grátur og gnístran tanna? Hér er verið að kynna 15 ára nýtingarsamninga fyrir handhafa sem hægt er að framlengja til 23 ára. (Gripið fram í.) 18 ár eru lengstu nýtingarsamningar í heimi. Hvernig getur Sjálfstæðisflokkurinn haldið því fram að lagðir séu til allt of skammir samningar? (Gripið fram í.) Hvar í víðri veröld hefur hann dæmi um það að lengra sé gengið í tímalengd samninga? (Gripið fram í: Hvaða frumvarp ertu að tala um?)

Þegar við ræðum um veiðigjaldið er eðlilegt að spyrja formann Sjálfstæðisflokksins, því að það er rétt hjá honum að Sjálfstæðisflokkurinn innleiddi það, hvort honum finnist viðeigandi að hlutur almennings í 45 milljarða hagnaði sjávarútvegsins árið 2009 sé 3 milljarðar í veiðigjald en 42 milljarðar renni til handhafa veiðiheimilda. Er ekki hóflega fram gengið í þessu máli að ætla að hækka það gjald til almennings í 5–6 milljarða þegar afkoman í greininni er svona gríðarlega góð? (Forseti hringir.) Eða telur Bjarni Benediktsson að 15 kr./kg muni setja einhverja útgerð í landinu á hausinn?