139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[23:34]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Þær tölur sem hv. þingmaður fer með eru ekki hagnaðartölur útgerðarinnar, það eru tölur um framlegð. Þá á eftir að standa undir öllum fjárfestingarkostnaði og afskriftum. Það er því ekki hreinn hagnaður útgerðarinnar sem hér er vísað til.

Það hvernig rétt væri að stilla veiðigjaldinu hangir saman með öllum þeim atriðum sem eru undir, þ.e. heildarfyrirkomulagi fiskveiðistjórnarinnar. Það er ekki hægt að slíta einn lið út úr og segja: Er ekki sanngjarnt að hafa þetta svona? — eins og hv. þingmaður gerir með tímalengd samninganna. Það fer eftir ýmsu öðru, t.d. endurnýjunarákvæðum.

Það er rangt sem kom fram í máli hv. þingmanns, að engin dæmi væru um varanlegar aflahlutdeildir, þess eru dæmi og mér heyrist Evrópusambandið meira að segja stefna í átt til slíks kerfis (Forseti hringir.) eða að minnsta kosti í það að vera með nýtingarsamninga til mjög langs tíma.