139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[23:36]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Bjarni Benediktsson ræddi aðallega um það frumvarp sem ekki er komið á dagskrá og ekki er búið að mæla fyrir. Þess vegna hefur ráðherra ekki flutt ræðu sína um það frumvarp. Við ræðum núna hitt frumvarpið sem lýtur að tilteknum aðgerðum sem koma til framkvæmda annars vegar á þessu ári og hins vegar á því næsta. Þær aðgerðir lúta að strandveiðunum og því að treysta og auka byggðatengdar aðgerðir og atriði sem ég hélt að allir væru meira og minna sammála um að þyrfti að taka á.

Hv. þingmanni varð tíðrætt um skötuselsmálið, að vonum, þegar nokkur hundruð tonn af skötusel voru ekki aðeins látin kollvarpa þátttöku eins aðila í endurskoðunarnefndinni, sem sagði sig síðan frá henni, heldur líka steypa svokölluðum stöðugleikasáttmála. Þær aðgerðir sýna í hnotskurn hvað við er að fást þegar fisktegund breytir mynstri sínu og veru við landið, færist til frá Suðurlandi til Norður- og Vesturlands. Eiga aflaheimildirnar þá að vera áfram í höndum þeirra sem upphaflega veiddu þann fisk sem kom til landsins við suðurströndina? (TÞH: Þetta er ekki veitt af bryggjunni.) Þetta var afar ósanngjarnt kerfi og ég tel að bæði með strandveiðunum — vissulega var með strandveiðunum verið að brjóta (Forseti hringir.) upp núverandi kerfi — og skötuselsákvæðinu hafi verið stigin gríðarlega mikilvæg skref. Ég spyr hv. þingmann: (Forseti hringir.) Vill hann að þetta verði algjörlega tekið til baka og við hættum strandveiðunum eins og var kannski að heyra á hv. þingmanni?