139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[23:47]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég held að við séum flest sammála um að snúa aldrei aftur til þess tíma þegar við veiddum óheft fisk allt í kringum landið hvar sem við vildum róa til fiskjar. Sá tími er liðinn og hann kemur aldrei aftur, kannski því miður en kannski sem betur fer líka. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa nokkrum sinnum nefnt í ræðum sínum í dag mikilvægi þess að leggja áherslu á hámarksarðsemi greinarinnar og ég vil því spyrja hv. þingmann hvort hann telji að við nýtum nú fiskstofnana í kringum landið þannig að við náum hámarksarðsemi af þeim. Ef ekki, til hvaða ráða þurfum við þá að grípa til að auka arðsemi í greininni? Þarf að fækka skipum? Þarf að fjölga skipum? Þarf að auka fjölbreytni í útgerð og fiskvinnslu? Eða telur hv. þingmaður yfir höfuð að við þurfum að grípa til einhverra aðgerða (Forseti hringir.) við stjórn fiskveiða, annaðhvort til að leiðrétta kerfið, sníða af því agnúa, eða til svara þeim gagnrýnisröddum sem hafa verið uppi um kerfið árum saman?