139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[23:48]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel að það sé augljóst að við náum ekki hámarksafrakstri í veiðum í dag. Það er nokkuð skýrt að bæði sá floti sem við búum yfir og þær vinnslur sem við höfum gætu afkastað meiru, en til þess þyrftum við að fækka talsvert í fiskiskipaflotanum og þjappa heimildunum saman á færri skip. Það gæti orðið mjög erfið aðgerð. Það eru efri mörk á því samkvæmt lögunum hversu miklar heimildir geta ratað á einn og sama útgerðaraðilann. Það er skynsamlegt að slíkar breytingar verði á lengri tíma. En hafa verður í huga að grunnur kerfisins verður áfram að vera sá að við náum hámarksafrakstri til langs tíma, það verður áfram að vera grunnurinn um leið og við virðum hitt mikilvæga markmiðið, (Forseti hringir.) að styrkja atvinnu og byggð.