139. löggjafarþing — 136. fundur,  31. maí 2011.

störf þingsins.

[10:39]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Mig langar að ræða hér um þá grafalvarlegu stöðu sem blasir við okkur Íslendingum í efnahagsmálum þjóðarinnar. Margir eru uggandi yfir stöðu íslensks atvinnulífs og efnahagslífs. Aðilar vinnumarkaðarins og allir þeir aðilar sem fylgjast með þróun efnahagsmála hér á landi hafa á undanförnum vikum og mánuðum lýst yfir vaxandi áhyggjum af kólnun efnahagslífsins. Ef fram heldur sem horfir blasir við okkur að efnahagskerfið mun botnfrjósa.

Það vantar fjárfestingu inn í íslenskt atvinnulíf, einhverja forsendu nýafstaðinna kjarasamninga. Hvað gerist þá? Næstum strax daginn eftir að kjarasamningar eru samþykktir leggur ríkisstjórnin fram frumvarp um breytingar á fiskveiðistjórnarlögunum gjörsamlega gegn öllum helstu hagsmunaaðilum í íslenskum sjávarútvegi. Þá erum við að tala um launafólk í sjávarútvegi til lands og sjávar, við erum að tala um smábátasjómenn og aðra útgerðaraðila. Það er makalaust að sjá hvernig ríkisstjórnin hefur haldið á þessum málum hér.

Hver er árangur ríkisstjórnarinnar í skuldamálum heimila og fyrirtækja? Hver er árangur ríkisstjórnarinnar í að auka atvinnu í landinu? Hver hefur árangur ríkisstjórnarinnar verið í hinu svokallaða Icesave-máli og hver er framtíðarsýn og áætlun ríkisstjórnarinnar þegar kemur að áralöngum gjaldeyrishöftum sem eru framtíðarsýn þessarar ríkisstjórnar? Nú er búið að henda sprengju inn í íslenskt atvinnulíf sem er það frumvarp sem ríkisstjórnarflokkarnir mæltu fyrir í gær, þvert á allt samráð helstu hagsmunaaðila í þessari undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar.

Það er eðlilegt að við spyrjum: Verður (Forseti hringir.) þessari ríkisstjórn allt að óláni? Við þurfum að breyta um stefnu, við þurfum að breyta um vinnubrögð vegna þess að ef fram heldur sem horfir munum við horfa upp á enn meira atvinnuleysi í landinu. Og nógu slæmt er ástandið fyrir, frú forseti.