139. löggjafarþing — 136. fundur,  31. maí 2011.

störf þingsins.

[10:46]
Horfa

Atli Gíslason (U):

Frú forseti. Ég ætla ekki að svara útúrsnúningum hv. þingmanns um umhverfismál, það vita allir hvar ég stend í þeim málaflokki. Ég ætla bara að segja að á vegum Evrópusambandsins starfa yfir 430 nefndir sem sinna löggjafarstarfi fyrir ráðið, stórar nefndir. Íslendingar taka lítinn sem engan þátt í því. Þessar nefndir undirbúa löggjöf, reglugerðir og tilskipanir. Það fer síðan allt til ráðherraráðsins og þaðan til Evrópuþingsins til samþykktar eftir nákvæma skoðun sem Íslendingar koma ekki að.

ESA og stofnanir EFTA hafa síðan þrjár vikur til að fara yfir þetta. Í þessu ferli hafa orðið stórslys vegna þess að við nýtum ekki undanþágur okkar. Mér nægir að nefna raforkutilskipunina (VigH: Rétt.) sem hækkaði raforku til neytenda á Íslandi um yfir 20%. Það var ekki sótt um undanþágu á þeirri einföldu forsendu að Ísland er eyland og er ekki í samkeppni í raforkumálum erlendis.

Ég nefni líka matvælafrumvarpið sem var vegna fæðuöryggis næstum orðið að stórslysi vegna innflutnings á hráu kjöti. Ég nefni fosfat-málið sem saltfiskframleiðendur hafa verið að vinna í. Þar eru 20 milljarða hagsmunir sem ekki var sinnt. Allt starf Samfylkingarinnar gengur út á þessa aðlögun og umsókn að ESB og ég segi bara: Kröftum okkar væri betur varið í að bjarga íslenskum heimilum og atvinnulífi. Ef sami kraftur væri lagður í það [Kliður í þingsal.] og þessa umsókn værum við betur sett.

Ég segi líka að regluverk ESB er alls ekki sniðið að eylandinu Íslandi, að smáþjóðum, heldur milljónaþjóðum erlendis. Hagsmunagæsla okkar í stórum málum er í skötulíki. Það er bara þannig. Við erum lögafgreiðslustofnun og ég held því fram (Gripið fram í.) að við framseljum löggjafarvald okkar og fullveldi. Það er erfitt að hlusta á þetta en þetta er hið rétta svar, og heiðarlegt. (MÁ: Hvað með … EES?)

(Forseti (ÁRJ): Forseti biður hv. þingmenn um að gefa ræðumönnum hljóð.)