139. löggjafarþing — 136. fundur,  31. maí 2011.

störf þingsins.

[10:50]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Frú forseti. Rétt fyrir páskana sendi stór hópur fólks kvörtun til ESA vegna lánamála heimilanna í landinu. Kvörtunin beindist bæði gegn verðtryggingunni og viðbrögðum íslenskra stjórnvalda í gengislánamálum, þar á meðal setningu laga nr. 151/2010. Ég vil gera þingheimi grein fyrir þátttöku minni í þessu máli en ég er ein af þeim þúsund einstaklingum sem lögðu þessa kvörtun fram en þeir eru af þremur þjóðernum. Auk þess eru Hagsmunasamtök heimilanna og Samtök lánþega aðilar að kvörtuninni en þau hafa samtals um 9 þúsund félagsmenn.

Fyrir rúmri viku fylgdum við kvörtuninni eftir með fundum hjá ESA, Evrópuþinginu og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Við funduðum með embættismönnum stækkunardeildarinnar sem sér um mál Íslands og deild um neytendamál og neytendarétt. Okkur var ákaflega vel tekið og málstað skuldugra íslenskra heimila var sýnd bæði hluttekning og mikill áhugi.

Tvennt stendur upp úr í huga mér frá þessum fundum. Á tveimur þeirra sáu fundarmenn ástæðu til að spyrja hvort það væri virkilega ekkert fjármálaeftirlit á Íslandi. Á einum þeirra var fullyrt að svona lagað, þ.e. afturvirk lagasetning sem bitnar illilega á almenningi en hyglar lögbrjótum sem eru fjármálafyrirtækin, gæti aldrei gerst innan Evrópusambandsins. Þetta finnst mér sérstaklega athyglisvert þar sem annar stjórnarflokkurinn vill ekkert frekar en koma okkur inn í Evrópusambandið. Ég mælist þá til þess að hann fari að æfa sig og þá með því að virða neytendalöggjöf sem er í gildi og við höfum innleitt úr Evrópurétti. Svo er það líka spurning að fá sér almennilegan efnahags- og viðskiptaráðherra.