139. löggjafarþing — 136. fundur,  31. maí 2011.

störf þingsins.

[10:57]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég ræddi í gær við hæstv. iðnaðarráðherra um atvinnuuppbyggingu á Bakka við Húsavík. Hún nefndi í ræðu sinni að til stæði að gera viljayfirlýsingu við þau sveitarfélög sem þátt eiga í málinu og vil ég sérstaklega fagna því. Ég tel hins vegar viljayfirlýsingu, um að nýta orkuna heima í héraði, í raun algerlega óþarfa. Við skulum átta okkur á því að hún skapar ekki þau störf sem við þurfum svo nauðsynlega á að halda nú um stundir. Það er allt til reiðu, það er búið að afla orkunnar; umhverfismat, skipulagsferli, allt er til staðar til að við ráðumst í framkvæmdir og sköpum gríðarlega mikinn arð fyrir samfélagið, aukum hagvöxt og minnkum atvinnuleysi.

Hæstv. ráðherra nefndi einnig að hún fagnaði því að ákvörðunin yrði tekin á viðskiptalegum forsendum. Af þeim orðum hef ég töluverðar áhyggjur. Ef við hefðum þennan hugsunarhátt, t.d. varðandi fiskinn í sjónum, þá þýddi það að við mundum, á viðskiptalegum forsendum, senda allan fisk óunninn út úr landinu vegna þess að þannig fæst hæsta verðið fyrir hann. Þýðir þetta það að Landsvirkjun ætli sér að leggja sæstreng og selja orkuna úr landi? Ég tel að við eigum að nýta hana hér á landi til að skapa störf.

Fregnir herma að Landsvirkjun krefjist gríðarlega hás orkuverðs og sé í raun að fæla væntanlega orkukaupendur frá þeim verkefnum sem unnið hefur verið að til langs tíma. Af þessu hef ég töluverðar áhyggjur og ég skora á þingmenn alla að leggjast á sveif með okkur framsóknarmönnum og gera atvinnuuppbyggingu í Þingeyjarsýslu að veruleika sem fyrst.