139. löggjafarþing — 136. fundur,  31. maí 2011.

störf þingsins.

[11:01]
Horfa

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég get ekki tekið undir síðustu orð hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, en undir önnur orð get ég tekið. Það er rétt að gerð hefur verið könnun sem er hluti af doktorsverkefni doktorsnema og heilbrigðisnefnd hefur fengið kynningu á þessum hluta doktorsnámsins. Þær upplýsingar sem þar koma fram eru mjög sláandi og þó að ritgerðin liggi ekki fyrir og neminn hafi ekki skilað af sér er þegar farið að vinna með þessar upplýsingar í góðri samvinnu við landlæknisembættið og heilbrigðisráðuneytið.

Það er verið að hanna íslenska staðla samkvæmt RAI-mati sem er að amerískri fyrirmynd og við getum ekki yfirfært yfir á íslenskan raunveruleika en það er verið að búa þessa staðla til. Þegar þeir liggja fyrir tel ég að mat manna verði að hægt verði að nota þá staðla til að flokka þjónustugæði hjúkrunarheimila og önnur heimili geti þá séð hvar þau standa innbyrðis og bætt sig eins og hefur gerst í skólakerfinu.

Landlæknisembættið hefur eftirlit með heilbrigðisstarfsmönnum og gæðaþjónustu í heilbrigðisþjónustunni. Það var hryggilegt að sjá fréttamyndir um aðbúnað einstaklings í sjónvarpinu fyrir stuttu og ég harma að svona skuli geta gerst. Það er ámælisvert en ég tel að það eigi að vera í höndum landlæknis að meta það að sinni hvort birta eigi nafn þessa heimilis eða ekki. Það fer eftir því hvort þetta er einstakt brot eða hvort þetta er heimili sem hefur áður komið inn á borð landlæknis. Ég tel að það sé best komið í hans höndum að meta hvort það eigi að birta nafnið.