139. löggjafarþing — 136. fundur,  31. maí 2011.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

864. mál
[11:09]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. formanni viðskiptanefndar, hv. þm. Álfheiði Ingadóttur, fyrir framsöguna. Ég held að það sé mikilvægt fyrir okkur að reyna að koma þessu máli hratt áfram í dag og þetta er skynsamleg leið til að skapa frið um afgreiðslu þess. Það er mjög mikilvægt að við hefjum sjóðsöfnun og mikilvægt að við byrjum að safna í nýjan innstæðutryggingarsjóð. Það er sama hvaða reglur við höfum um innstæðutryggingakerfi, við munum aldrei komast hjá því að byggja upp traust og trúverðugt innstæðutryggingakerfi í landinu ef við ætlum að létta af gjaldeyrishöftum. Íslenskir bankar munu aldrei þola það að létt verði af gjaldeyrishöftum ef þeir geta ekki reitt sig á skynsamlegt og traust innstæðutryggingakerfi sem skilar íslenskum innstæðueigendum í íslenskum bönkum jafnmiklum ávinningi og þeir mundu fá annars staðar. Þetta er grundvallarhugsunin að baki innstæðutryggingakerfinu og þetta er það sem mestu skiptir fyrir okkur núna þegar fram í sækir, að við höfum innstæðutryggingakerfi sem gefur íslenskum fjármálastofnunum stöðu til þess að mæta viðskiptavinum sínum og innstæðueigendum með sama hætti og fjármálastofnanir í öðrum löndum geta gert.

Ég hef rætt á fundi viðskiptanefndar um að vilji okkar standi til þess að fara vandlega yfir þetta mál í sumar, nýta tímann vel og ræða við fulltrúa stjórnarandstöðunnar um sjónarmið sem fram hafa komið í vinnunni. Frumvarpið hefur batnað mjög mikið í meðförum þingsins í vetur og ég held að það bíði ekki til tjóns í sumar ef við vinnum í því áfram. Markmiðið er að á fyrstu dögum þings í vetrarbyrjun verði lagt fram frumvarpið að nýju með áorðnum breytingum og að það eigi þá skjóta og trausta leið í gegnum þingið.