139. löggjafarþing — 136. fundur,  31. maí 2011.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

864. mál
[11:29]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Mér léttir við að sjá þetta frumvarp koma frá hv. viðskiptanefnd vegna þess að mér óaði virkilega við því frumvarpi sem menn voru að ræða hér, um að taka upp tilskipun Evrópusambandsins frá 2010, sem ekki er þörf á að gera, sem fól í sér ríkisábyrgð á innstæðum upp að þeim mörkum sem þar um ræddi.

Það eru þrjár tilskipanir Evrópusambandsins sem snerta innlánstryggingar. Í fyrsta lagi ESB/94/19 sem kvað á um það að ríkjum væri skylt að koma upp innlánstryggingarkerfi en ekki endilega ríkisábyrgð á það, herra forseti, og þar er mikill munur á.

Í nýrri tilskipun Evrópusambandsins frá árinu 2010 eru mörkin hækkuð og tekin upp að mínu mati ríkisábyrgð, því að ríkisvaldinu er falið að sjá til þess að í sjóði séu alltaf til peningar til að greiða út tjón. Það er alveg stórhættulegt fyrir litlar þjóðir eins og ég kem inn á hér á eftir. Og svo í nýjustu tilskipuninni frá 2011, sem ég hef ekki náð að kynna mér alveg, skilst mér að vikið sé aftur frá þessu. En tilskipunin frá 2010 hefur ekki verið tekin upp í EES-samkomulagið vegna mótstöðu Norðmanna sem betur fer, þó að mótstaða þeirra sé af allt öðrum toga en við erum að fjalla um, mér skilst að þeir vilji vera enn þá rausnarlegri.

Nú er það svo að þessar tilskipanir byggja á ákveðnum líkindum og líkindafræði og mér finnst margir ekki hafa áttað sig almennilega á því. Þegar við fórum að ræða hér um Icesave-samningana forðum daga lá ekkert fyrir um það hvernig ýmis óviss atriði mundu fara, t.d. hvernig eignasafni Landsbankans mundi reiða af. Það vitum við mikið betur í dag þannig að hver dagur breytir óvissu í vissu og hver dagur gerir það að verkum að mér líður betur, herra forseti, í þessu samhengi. Ég óttast sífellt minna og minna einhver áföll vegna Icesave.

Innlánstryggingar ganga út á það að tryggja fólkið fyrir einmitt þessari óvissu eða líkindafræði, líkindum. Ég vil fullyrða, herra forseti, að það er engin trygging á Íslandi, hún er bara ekki til staðar. Mér finnst að hæstv. ráðherra þurfi að koma því áleiðis til Evrópusambandsins — og vildi ég þá gjarnan að hann hlustaði á mál mitt — hann þarf að koma því til Evrópusambandsins að innlánstryggingakerfið eins og það er hannað er bara engin trygging fyrir minni lönd.

Ef einn af þremur bönkum á Íslandi fer á hausinn eða einn af 20 meginbönkum í Finnlandi eða hvar það nú er, segjum í Finnlandi, ef einn af hverjum 10 bönkum þar færi á hausinn þarf að borga út, ef þetta er meðalbanki, 10% af öllum innstæðum í því landi. Fyrir því er aldrei nokkurn tíma til peningur í þessum sjóði af því að hann er með hámark 4% ef ég man rétt. Tryggingin virkar því ekkert í Finnlandi og enn síður á Íslandi. Ef ekkert gerist og enginn banki fer á hausinn stendur sjóðurinn náttúrlega vel alla tíð en ef eitthvað gerist og einn banki af þremur fer á hausinn getur hann ekki borgað af því að það er engin trygging á Íslandi og það er heldur engin trygging í Danmörku, Svíþjóð, Finnlandi eða Noregi.

Þetta innlánstryggingakerfi virkar ekki nema fyrir stærstu löndin, þ.e. Þýskaland, Frakkland, Bretland og hugsanlega Ítalíu og Spán, hugsanlega. Mér finnst að hæstv. ráðherra eigi að koma þessu áleiðis til Evrópusambandsins, segja mönnum þar að þeir séu að búa til einhverja dellu og þeir verði að fara að huga að því að koma upp sameiginlegum evrópskum innlánstryggingasjóði sem getur haft eftirlit með innstæðum og ef þær vaxa of hratt, sérstaklega ef vextirnir eru óeðlilega háir, eigi hann að geta bannað slíkar innstæður. Það þarf líka að setja í lög að innstæður hafi forgang eins og við gerðum í neyðarlögunum. Þetta finnst mér vera mjög mikilvægt.

Það frumvarp sem við ræðum hér kemur í staðinn fyrir frumvarp sem hæstv. ráðherra flutti og byggði á þeirri forsendu, herra forseti, að það væri ríkisábyrgð á innstæðum á Íslandi, en það er bara alls engin ríkisábyrgð á Íslandi á innstæðum og hefur ekkert verið. Yfirlýsingar ráðherra hafa ekkert lagagildi og geta ekki skuldbundið ríkissjóð, aldrei. Það eru eingöngu fjárlög eða fjáraukalög sem geta skuldbundið ríkissjóð á Íslandi vegna þess að í stjórnarskránni segir að ekki megi greiða út neitt fé úr ríkissjóði nema með heimild í fjárlögum eða fjáraukalögum. Það er því engin trygging á innstæðum og þar af leiðandi er forsenda þess frumvarps sem við höfum verið að ræða hér í marga, marga mánuði brostin, hún er bara ekki til staðar. Þess vegna er ég mjög ánægður með að hv. viðskiptanefnd hafi látið skynsemina ráða í þessu máli og gleðst mjög yfir þessu frumvarpi.

Ég hef hvorki haft tíma né tækifæri til að — ég hef verið á fundum í morgun frá því klukkan átta, ég var á fundi til um klukkan ellefu í gærkvöldi — til að lesa þetta frumvarp enda er það nýframkomið. Ég vænti þess að farið verði vel fyrir þetta frumvarp í dag þannig að menn séu ekki að gera nein mistök og það verði gert að lögum í dag. Ég vonast til að sumarvinnan verði mjög ítarleg. Ef menn óska eftir því mun ég taka þátt í þeirri vinnu og hefði mikinn áhuga á því.

Ég vil, herra forseti, að Ísland ræði við norrænu ríkin um að stofna sameiginlegan tryggingarsjóð fyrir Norðurlönd. Þá hefur hann kannski eitthvert tryggingagildi í þeirri ríkjablokk ef hún er sameiginleg. Ég vil að hæstv. utanríkisráðherra og hæstv. viðskiptaráðherra komi því á framfæri við vini sína í Evrópusambandinu að Norðurlöndin alla vegi taki upp sameiginlegan tryggingarsjóð. Hann hefur ekkert gildi annars í neinu landanna nema einhver smásparisjóður fari á hausinn sem skiptir engu máli. En fari einhver af meginbönkunum á hausinn í þessum löndum eru innstæður ekki tryggðar og það er bara fals og hreinlega verið að blekkja fólk með því að segja að það séu einhverjar innstæðutryggingar í stóru bönkunum í þessum löndum. Langbest væri náttúrlega að koma þessu yfir til Evrópusambandsins og af því að ég veit að hæstv. ráðherra er mikill áhugamaður um einmitt Evrópusambandið og ef hann á einhverja vini þar ætti hann að tala við þá um að breyta þessari tilskipun þannig að þetta sé einn sjóður fyrir alla Evrópu.

Ef ekki næst að tala við Norðurlöndin mundi ég spjalla við Þjóðverja um hvort Íslendingar megi ekki vera með í innlánstryggingakerfi þeirra. Þá erum við komin með fína tryggingu, þá er þetta alvörutrygging. Ef ekkert gerist á Íslandi borgum við fyrir lítinn hluta í tjóni sem verður í einhverjum einum banka í Þýskalandi og hann má gjarnan vera stór því að Þýskaland er stórt. Ef eitthvað gerist á Íslandi fáum við tryggingu frá þeim af því að íslensku bankarnir eru ekkert voðalega stórir á þýskan mælikvarða. Þetta mundi ég vilja að menn gerðu í sumar. Ég styð þetta mál eindregið og þess vegna ætla ég ekki að tefja málið meira með því að tala lengur.