139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

opinber innkaup.

189. mál
[14:06]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Þessi vinnustaður er að verða mikið kærleiksheimili. Hér náum við saman í ótrúlegustu málum og um annað sem er líklegt. En hér er mál á ferðinni sem ætti að vera góð samstaða um en gengur í prinsippinu út á það að auka heimildir til að ná hagstæðum innkaupum fyrir opinberar stofnanir.

Hins vegar eru ákveðnar hættur í þessu. Ég held að það sé afskaplega skynsamlegt að við samþykkjum þessa breytingartillögu. Þó svo að markmiðið sé alveg skýrt og fulltrúar allra flokka hafi farið mjög vel yfir það hvert það er, er samt sem áður hægt að ganga þannig fram að menn fari í rauninni þvert á það markmið sem við höfum um aukna samkeppni í landinu. Þess vegna er þessi breytingartillaga tilkomin sem við flytjum hér. Ég vonast til að við getum náð góðri sátt um hana og um málið í heild.