139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[14:20]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í skýrslunni nefndarinnar segir að Rannsóknarstofnun Háskólans á Akureyri komist að því að 18–12% aflaheimilda sé í handhöfn fyrirtækja sem séu í óviðráðanlegri skuldastöðu og 40–50% í höndum fyrirtækja í erfiðri stöðu. Áætlað er að fyrirtæki í góðri stöðu ráði yfir 30–35% af heimildunum og nánast skuldlaus félög séu með 8–12%. Í niðurstöðum RHA kemur fram að ætla megi að línuleg innköllun aflaheimilda á 20 árum leiði til gjaldþrots sjávarútvegsfyrirtækja sem ráða yfir 40–50% aflaheimilda í dag.

Ég held því, þótt ég hafi ekki farið nákvæmlega með tölurnar, að ég hafi verið að segja að þeir mæltu svo sannarlega ekki með því að þessi leið yrði farin. Mér finnst einmitt koma fram í álitum fulltrúa stjórnarflokkanna að þeir viðurkenna þá staðreynd og bakka þess vegna frá hugmyndinni um fyrningarleiðina og taka undir hugmyndir varðandi samningaleiðina.

Mér fannst líka áhugavert, þegar ég las sérálit hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar, að sjá alla þá fyrirvara sem hann setur og það kemur strax fram hér, með leyfi forseta:

„Tilraun til þess að víkja frá þeim meginsjónarmiðum sem liggja til grundvallar nær einróma niðurstöðu fjölskipaðrar nefndar ólíkra hagsmunahópa og stjórnmálaflokka væri (Forseti hringir.) bara hægt að túlka sem rof á samkomulagið sem menn gerðu í góðri trú.“

Það virðast því strax hafa verið komnar upp töluverðar efasemdir þegar hv. þingmaður skilaði inn áliti sínu, um að (Forseti hringir.) ekki yrði staðið við eitthvert samkomulag sem ég á samt erfitt með að sjá.