139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[14:21]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að segja það strax: Ég hafði fulla trú á því að staðið yrði við samkomulagið. Ég trúði því ekki að búið væri að sitja yfir þessari vinnu í 18 mánuði, kalla til alls konar sérfræðinga, komast að nær samhljóða niðurstöðu og það mundi síðan leiða til þess að menn byggju til einhvern útúrsnúning á þeirri niðurstöðu með frumvörpunum sem við höfum séð núna og hafa verið til umræðu. Hins vegar setti ég þennan varnagla, ég vakti athygli á því að það væri rof á samkomulagi ef menn færu að leika slíka leiki. Ég átti ekki von á að menn gerðu það en það var því miður gert.

Hv. þingmaður nefndi strandveiðarnar í ræðu sinni áðan og við skulum ræða þær. Hv. þingmaður velti því fyrir sér hvort þetta væri ekki leið til að opna fyrir nýliða inn í sjávarútveginn. Nú hefur verð á strandveiðibátum, en báturinn er veiðirétturinn, stórhækkað, sérstaklega eftir að fréttir bárust um að ætlunin væri að auka í strandveiðipottinn.

Nú vil ég spyrja hv. þingmann: Finnst henni ekki augljóst að eins og málin hafa þróast hafi verið að byggjast upp mikill þröskuldur fyrir aðgangi að fiskveiðistjórnarkerfinu í gegnum strandveiðarnar?