139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[14:37]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Kjarni málsins er að við erum ekki að vitna neitt í stefnu Framsóknar umfram stefnu stjórnarflokkanna af því að hún er komin fram. Niðurstaða stjórnarflokkanna byggð á sáttinni í skýrslunni er að fara nýtingarsamningaleiðina þar sem allar aflaheimildir eru innkallaðar og þeim endurúthlutað í einu lagi. Það er niðurstaða stjórnarflokkanna og kemur fram í frumvörpunum báðum frá hæstv. ráðherra. Það er fagnaðarefni þegar hún fellur í öllum aðalatriðum að stefnu Framsóknar. Það hlýtur að vera ánægjulegt að við getum náð um þetta breiðri samstöðu eins og skýrslan gaf svo sannarlega til kynna. Ég held að bæði sé verið að ná réttlætissjónarmiðum og um leið er verið að skapa vissu fyrir útgerðina með nýtingarsamningum til tiltekins tíma, meiri vissu en hin eiginlega fyrningarleið með innköllun um 5–10% á ári hefði skapað. Hér er um að ræða að mörgu leyti miklu skynsamlegri leið þar sem verið er að innkalla og endurúthluta í einu lagi. Það er ekkert frávik frá stefnu neins, þetta er bara spurning um aðra útfærslu (Forseti hringir.) sem er byggð á sátta- og samningaleiðinni sem við náðum í nefndinni. Fyrr mætti aldeilis vera ef menn hefðu ekki farið eftir henni.